Vikuviðtalið: Gylfi Ólafsson

Villl vera vel formaður formaður

Ég heiti Gylfi Ólafsson. Ég er formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og var á síðustu helgi kjörinn formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og þar með Vestfjarðastofu. Þá er ég formaður starfshóps heilbrigðisráðherra um stöðumat og endurskoðun á kafla í heilbrigðisstefnu, en sá hópur var skipuður í sumar og lýkur störfum fyrir árslok. Einnig er ég að undirbúa verkefni í ferðaþjónustu sem vonandi opnar á næstu misserum sem ber vinnuheitið Þorskasaga þjóðar.

Frá Ísafirði til Stokkhólms og aftur heim

Menntaveginn gekk ég á Ísafirði, bæði í grunn- og menntaskóla, áður en ég lærði til grunnskólakennara á Akureyri og bjó svo á Spáni um hríð. Þaðan fór ég til Stokkhólms og kom heim með meistaragráðu í hagfræði og innritaður í doktorsnám í heilsuhagfræði sem ég lauk nokkru síðar.

Við Tinna Ólafsdóttir fluttum til Reykjavíkur árið 2013 og þá tók ég til við ýmis ráðgjafastörf í heilsuhagfræði innan lands og utan þangað til ég söðlaði um og fór í framboð fyrir Viðreisn haustið 2016. Ég náði ekki kjöri en varð í kjölfarið aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar formanns flokksins og síðar fjármála- og efnahagsráðherra. Sú ríkisstjórn varð skammlíf. Blásið var til kosninga um haustið 2017 og þá komst ég ekki heldur inn á alþingi. Ég tók þá til við að klára doktorsverkefnið sem beðið hafði í skúffunni og sinnti nokkrum ráðgjafaverkefnum áður en ég sótti um og fékk stöðu forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða sumarið 2018.

Þá hafði sonur minn bæst við dóttur sem fæðst hafði 2015. Við fluttum vestur og fundum okkur hús við Tangagötuna. Mamma mín og pabbi, Áslaug S. Alfreðsdóttir og Ólafur Örn Ólafsson, sem búið höfðu á Ísafirði við rekstur Hótels Ísafjarðar í kvartöld, höfðu þá flutt heim til sín í höfuðborgina.

Á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Starfið á Heilbrigðisstofnuninni var lærdómsríkt og gekk vel. Stofnunin hafði glímt við innbyrðis deilur, hafði dregist aftur úr í ýmisskonar nútímavæðingu og hafði aldrei almennilega orðið að einni stofnun, en Heilbrigðisstofnunin á Patreksfirði rann inn í þáverandi Heilbrigðisstofnun Vestfjarða árið 2014. Tveir stórir atburðir settu sérstaklega mark sitt á tíma minn í starfi. Annars vegar var það covid-faraldurinn sem kom illa niður á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík í apríl 2020 og hins vegar opnun Dýrafjarðarganga í október sama ár sem bylti samgöngum milli starfsstöðva.

Heilbrigðisráðherra framlengdi skipun mína þegar leið að því að fimm ára skipunartíma lyki en mér fannst tími kominn til að láta gott heita í bili. Tímabært væri að hleypa öðrum að með aðra sýn, og önnur verkefni, bæði á sviði héraðsstjórnmála og öðrum vettvangi, kölluðu á mig. Þannig hef ég verið að þróa ferðaþjónustuverkefni, sinna bókaútgáfu og tónlist, setið af skriftum og margt fleira.

Ég hef einnig setið í bæjarstjórn og bæjarráði Ísafjarðarbæjar frá sveitarstjórnarkosningunum 2022 fyrir Í-listann, en það er samsteypuframboð Viðreisnar, Samfylkingarinnar og VG. Við náðum hreinum meirihluta. Starfið hefur gengið afar vel enda hefur gott fólk raðast í helstu stöður kjörinna fulltrúa og embættismanna.

Nú síðast var ég svo kjörinn formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og þar með Vestfjarðastofu, sem er hnútpunktur samstarfs milli sveitarfélaga og atvinnulífs á svæðinu auk ríkisins.

Áhugamál: Píanó og skíðaganga

Ég á ýmis áhugamál. Ég rækta til dæmis mjölorma í kjallaranum hjá mér. Einnig spila ég talsvert á píanó, einkum djass, og hef verið að gefa píanóinu meiri gaum síðustu mánuði. Á sunnudaginn 27. október er ég að gefa út bók sem heitir Lög frá Ísafirði, þar sem nótur að 37 lögum frá Ísafirði og nærsveitum eru prentuð upp. Það hefur verið skemmtilegt bras að koma því verkefni saman.

Þá stunda ég skíðagöngu og verið sjálfboðaliði í stjórn Fossavatnsgöngunnar og gengið þar í ýmis störf svo sem kynningarmál og samantekt á sögulegum gögnum. Skíðagangan, og ýmis önnur líkamsrækt svo sem útihlaup, hjálpa mér að halda mér í formi. Ég þarf að vísu aðeins að taka mig á og tálga og forma líkamann betur í haust og vetur. Markmiðið er að vera vel formaður formaður.

DEILA