Verðbólga lækkar um 0,3 prósentustig milli mánaða og mælist nú 5,1 prósent.
Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í október 2024, er 634,1 stig og hækkar um 0,28 prósent frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 510,8 stig og hækkar um 0,29 prósent frá október 2024.
Í tilkynningu á vef Hagstofunnar segir að verð á mat hafi hækkað um eitt prósent og haft 0,13 prósenta áhrif á mælinguna, og flugfargjöld til útlanda hækkað um 6,6 prósent, áhrif 0,12 prósent.
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,1 prósent og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 2,8 prósent.
Ef olíugjald eða önnur vörugjöld af eldsneyti eru lækkuð eða felld niður hefur það áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs.
Varðandi áhrifin af upptöku kílómetragjalds er fáum fordæmum fyrir að fara í þeim efnum og svarið við því fyrir vikið ekki jafn augljóst, að því er segir á vef Hagstofunnar.