UUA: staðfestir leyfi við Sandeyri

Fyrirhuguð eldissvæði Arctic Fish í Ísafjarðardjúpi.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál staðfesti í dag útgefið rekstrarleyfi Matvælastofnunar fyrir laxeldi við Sandeyri í Ísafjarðardjúpi.

Hins vegar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að fella eigi úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar um útgáfu á rekstrarleyfi á eldissvæðum kennd við Arnarnes og Kirkjusund. Í því felst að Matvælastofnun þarf að rannsaka betur skilyrði fyrir útgáfu leyfanna við Arnarnes og Kirkjusund en rekstrarleyfi eldissvæðisins við Sandeyri verður áfram í fullu gildi.

Að öðru leyti var kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Ísafjarðardjúp – tvö mál

Varðandi Ísafjarðardjúp er um er að ræða tvö kærumál.

Í máli nr. 36/2024 kærir Gunnar Örn Hauksson, eigandi jarðarinnar Sandeyri við Snæfjallaströnd, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 21. febrúar 2024 að breyta starfsleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi.

Í úrskurði nefndarinnar er hafnað ógildingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 21. febrúar 2024 um að breyta starfsleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. Starfsleyfið heldur því gildi sínu óbreytt.

Í máli nr.33/2024, kærir Hábrún hf., er leggur stund á sjókvíaeldi í Skutulsfirði í Ísafjarðardjúpi, þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 29. febrúar 2024 að veita Arctic Sea Farm ehf. rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á regnbogasilungi og laxi í Ísafjarðardjúpi með 8.000 tonna hámarkslífmassa, þar af 5.200 tonn af frjóum laxi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Í máli nr. 35/2024, kærir Gunnar Örn Hauksson, eigandi jarðarinnar Sandeyri við Snæfjallaströnd, sömu ákvörðun með kröfu um ógildingu hennar. Það mál, var sameinað kærumáli nr 33/2024 þar sem um sömu ákvörðun er að ræða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Í úrskurði nefndarinnar kemst hún að þeirri niðurstöðu að Matvælastofnun hafi ekki leitast við leggja heildstætt vegið mat á þá áhættu sem felst í fráviki frá viðmiðun reglugerðar um minnstu fjarlægð milli fiskeldisstöðva í Ísafjarðardjúpi, að teknu tilliti til aðstæðna á því svæði. Þá hafi skilyrði í rekstrarleyfinu hvað varðar fjarlægðartakmarkanir ekki verið nægilega skýr.

Að þeim sökum og með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga var hin kærða ákvörðun felld úr gildi hvað varðar eldissvæði kennd við Arnarnes og Kirkjusund. Að öðru leyti var kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað og því stendur óhaggað rekstrarleyfi Arctic við Sandeyri í Ísafjarðardjúpi.

Endurnýjun staðfest í Patreksfirði og Tálknafirði

Þriðji úrskurðurinn sem féll í dag var í máli nr. 49/2024, sem er kæra Veiðifélags Blöndu og Svartár, Landssambands veiðifélaga og Veiðifélags Hrútafjarðarár og Síkár, á þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 21. mars 2024 að endurnýja rekstrarleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði með 7.800 tonna hámarkslífmassa. Var þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Í úrskurði nefndarinnar er hafnað kröfu um að ógilda ákvörðun Matvælastofnunar frá 21. mars 2024 um að endurnýja rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði með 7.800 tonna hámarkslífmassa. Rekstrarleyfið heldur því gildi sínu.

Ekki markverð áhrif

Í tilkynningu frá Arctic Fish segir að ákvörðun ÚUa hefi ekki markverð áhrif á rekstur og horfur félagins, leyfilegur lífmassi verður áfram sá sami eða 8.000 tonn í Ísafjarðardjúpi. Notkun eldissvæðanna við Arnarnes og Kirkjusund var bundin ýmsum skilyrðum í umræddu leyfi sem Matvælastofnun mun nú taka til umfjöllunar að nýju.

DEILA