Á fyrstu átta mánuðum ársins námu útflutningsverðmæti eldisafurða tæpum 31 milljarði króna. Það er um 22% aukning frá sama tímabili í fyrra, þá hvort tveggja á breytilegu og föstu gengi. Þessa aukningu má að langstærstum hluta rekja til laxeldis. Þannig er útflutningsverðmæti lax komið í rúma 25 milljarða króna, sem er um þriðjungs aukning á milli ára og met á tilgreindu tímabili.
Þetta kemur fram í nýju fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Sjókvíaeldi meginstoðin í dag
Sú aukning sem orðið hefur í útflutningsverðmæti eldislax á árinu má vafalaust að langmestu leyti rekja til sjókvíaeldis en þó má reikna með að útflutningur frá landeldi sé farinn að leggja sitt lóð á vogarskálarnar. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan, þá hefur meginþorri framleiðslunnar á laxi hér á landi farið fram í sjó á undanförnum árum, eða sem nemur um 95% af allri framleiðslunni. Uppbygging í sjókvíaeldi er vel á veg komin, þó enn sé einungis helmingur framleiðsluheimilda í nýtingu. Það mun því áfram vera hryggjarstykkið í framleiðslu á laxi á allra næstu árum segir í fréttabréfinu.
Meiri fjölbreytni styrkir efnahagslífið
Þá segir að aukin umsvif í fiskeldi hér á landi séu jafnframt afar jákvæð fyrir þær sakir að fjölbreytileiki atvinnulífsins eykst. Það er afar mikilvægt eins og endurspeglast vel í nýlegri fréttatilkynningu lánshæfismatsfyrirtækisins Moody’s í tengslum við hækkun fyrirtækisins á lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins. Þar var einmitt vísað til þess að einkunnin gæti verið hækkuð frekar ef áframhaldandi aukinn fjölbreytileiki efnahagslífsins myndi draga úr sveiflum í hagvexti.
„Án nokkurs vafa er hér verið að vísa meðal annars til aukinna umsvifa fiskeldis hér á landi, þó fyrirtækið tilgreinir enga atvinnugrein sérstaklega í þessu sambandi. Fiskeldi er ein þeirra útflutningsgreina sem hefur verið í hvað mestum vexti á undanförnum árum og horfur eru á enn frekari vexti á komandi árum. Það sem stendur lánshæfismati ríkissjóðs einmitt einna helst fyrir þrifum er smæð og einsleitni hagkerfisins, sem lengi vel hefur hvílt á fremur fáum stoðum.“