Umhyggjuhagkerfið á Ástarviku

Það er viðeigandi að staldra við meðan á Ástarviku í Bolungarvík stendur og íhuga hið svokallaða umhyggjuhagkerfi og áhrif þess á samfélagið okkar. Bolvíkingar eru svo heppnir að búa bæði við öflugt raunhagkerfi, eins og hið hefðbundna hagkerfi frumatvinnugreina er stundum nefnt, og sterkt umhyggjuhagkerfi sem sést á öflugu kvenfélagi, fjölbreyttu íþróttastarfi og styðjandi velferðarsamfélagi umönnunar aldraðra og barna. Samfélagsgerð Bolungarvíkur má líka finna víðar um Vestfirði, en Bolvíkingar hampa umhyggjunni meira en margir.

Umhyggjan allt umlykjandi

Umhyggjuhagkerfið hefur verið skilgreint af félagsvísindafólki sem ósýnilegt kerfi, byggt á umhyggju og tilfinningavinnu kvenna, sem haldi samfélögum uppi, og þegar vel er að gáð má sjá hvernig allt okkar líf byggist á svokölluðum ástarkrafti og alúð kvenna sem gefa vinnu sína eða þiggja fyrir hana lágar launagreiðslur. Það tíðkast nefnilega ekki að skilgreina þessa vinnu sérstaklega sem verðmæti. Þegar við rýnum betur í málið sjáum við að störf á borð við umönnun og kennslu ungra barna, umönnun aldraðra og sjúkra og þjónustustörf teljast ekki til hálaunastarfa, jafnvel þó við þekkjum öll að þessum störfum fylgi mikil ábyrgð og kröfur. Þessi upptalning telur þó ekki með þá ólaunuðu og ögn óljósu þætti umhyggjuhagkerfisins sem felast í sjálfboðavinnu kvenna á öllum aldri og ójafnvægi í barnauppeldi og heimilisstörfum.

Langir og enn lengri vinnudagar

Hér áður fyrr var samfélagsgerð okkar með þeim hætti að karlmenn unnu langan vinnudag að heiman en konur unnu enn lengri vinnudag heima, og stundum einhverja vinnu að heiman að auki. Á liðnum áratugum hafa réttindi vinnandi fólks farið batnandi, á borð við aukinn veikindarétt og bætt lífeyrisréttindi. Það er þó bara hálfur sannleikur því heimilishald hefur aldrei verið launað starf og það hefur aldrei skapað nein lífeyrisréttindi að vera heimavinnandi. Allt í kringum okkur má sjá fólk á eftirlaunaaldri, karla og konur sem hafa lagt ómælda vinnu á sig við að byggja upp samfélagið, koma börnum á legg og þaki yfir höfuð fjölskyldunnar en konan situr uppi með lífeyrisréttindi sem geta verið áratugum lakari en karlsins. Konan sinnti ólaunuðum störfum í umhyggjuhagkerfinu og af ólaunuðum störfum eru ekki greidd lífeyrisiðgjöld.

Í dag lifum við á öðrum, betri og jafnari tímum, eða svo mætti halda. Í dag hafa konur náð að mennta sig til ýmissa starfa þó að umhyggjustörfin séu að mestu enn mönnuð konum. Konurnar fylla háskólana en þær fylla einnig hlutastörfin og störfin sem eru kölluð fjölskylduvæn. Foreldraorlof eru að stærstum hluta tekin af mæðrum og þó feður hafi vissulega farið að láta til sín taka í heimilishaldinu sinna konur enn stærstum hluta þeirra ólaunuðu og ósýnilegu starfa sem fylgja því að eiga fjölskyldu. Ég held að við könnumst flest við það að mæður þessa lands sjá um að fylla bása í Barnaloppunni og manna foreldrafélög.

Kerfisbundin vandamál þurfa kerfisbundnar lausnir

Vandamálið við ójafnvægið kringum umhyggjuhagkerfið er tvenns konar. Við höfum annars vegar kvennastörf sem eru kerfisbundið lægra launuð og við höfum hins vegar ólaunuð og ósýnileg samfélagsstörf sem að mestu eru innt af hendi af konum. Lausnin er ekki að markaðsvæða hið síðara með því að útvista heimilisstörfum, barnauppeldi og samkenndinni til annarra láglaunakvenna.

Við þurfum að færa jafnréttisbaráttu inn á heimilin og gera jafnrétti kynjanna að málefni fjölskyldna, feðra og karla, en ekki aðeins málefni sem konur berjast fyrir. Það þarf að endurmeta virði kvennastarfa, með tilliti til ábyrgðar og mikilvægis fyrir samfélagið, og eiga ríki og sveitarfélög að vera leiðandi í þeirri vinnu. Vanmat á kvennastörfum og framlagi kvenna er ein helsta ástæða kynbundins launamunar. Þetta vanmat er kerfisbundið og það þarf öfluga baráttu og samtakamátt til að breyta þessu kerfi.

Sigríður Gísladóttir

Ísafirði

Höfundur situr í 3. sæti á lista Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi

DEILA