Um óboðlegt sleifarlag og samgöngusáttmála Vestfjarða

Teitur Björn Einarsson, alþm.

Það er ögn flókið að lýsa stöðu samgöngumála á Vestfjörðum í stuttu máli. Sumpart er staðan góð. Stórar framkvæmdir eru í gangi á mikilvægum leiðum eða nýlokið og ýmislegt hefur áunnist á liðnum árum. En það dugar ekki til og víða er staðan með öllu óboðleg. Ókláraði vegkaflinn á Dynjandisheiði er sláandi dæmi um það og er algjör vitleysa.

Staðan

Tafir og frestun á þverun fjarðanna í Gufudalssveit, þvert á margítrekuð loforð, er enn fremur með öllu óviðunandi. Framkvæmdin er þess eðlis að íbúar njóta hennar ekki fyrr en brýrnar verða kláraðar. Því er það með öllu óboðlegt sleifarlag að draga framkvæmdatímann á langinn um heil þrjú ár, til ársins 2027, miðað við það sem áður hafði verið ákveðið í samgönguáætlun af hálfu Alþingis. Á sama tíma er framkvæmdum á suðausturhorninu, sem ekki höfðu verið settar í forgang með sama hætti, kippt fram fyrir röðina án fjárheimilda. Frestun á framkvæmdum á Strandavegi er aftur á móti orðið þaulæft stef hjá samgönguyfirvöldum, með mismunandi tilbrigðum þó. 

Þá er lítið að frétta af vinnu stjórnvalda um að efla vetrarþjónustu í fjórðungnum þrátt fyrir skýrt ákall Vestfjarðastofu og fleiri aðila um að breyta verði viðmiðunum svo Vestfirðingar njóti sama opnunartíma og aðrir landshlutar. Rútubruninn fyrir skömmu rétt neðan við Breiðadalsgöng dregur það svo fram að áskoranirnar í öryggismálum vegfaranda eru mun meira aðkallandi en áður hafði verið talið.

Stærsta áskorunin til lengri tíma litið eru svo hugmyndir samgönguyfirvalda um forgangsröðun jarðganga. Klettháls er í næstsíðasta sæti á listanum þrátt fyrir að vera oftast og lengst lokaður af öllum þeim 22 farartálmum sem skoðaðir voru við röðun á listann. Álftafjarðargöng eru númer fimm á listanum en ættu hið minnsta að vera samsíða Siglufjarðargöngum ef öryggi vegfarenda og sama áhættumat er lagt til grundvallar. Fleiri jarðgangakostir eru auðvitað brýnir á Vestfjörðum en samantekið þá draga þessar hugmyndir að forgangsröðun það fram að alltof langt er í viðunandi úrlausnir í jarðgangagerð á Vestfjörðum að óbreyttu og afleiðingin er lakari lífsgæði og verulega skert samkeppnisstaða.

Lausnir

Verkefnið er stórt og margþætt og raunhæfar lausnir eru litaðar af því. Sumar eru einfaldar á meðan aðrar krefjast undirbúnings og tíma. Strax mun reyna á mikilvæg úrlausnaratriði þegar samgönguáætlun verður lögð fram á þingi nú í október. Ef áætlunin verður lögð fram í sama eða svipuðum búningi og sú sem lögð var fram á síðasta þingi þá er ljóst að gera verður nokkuð róttækar breytingar áður en hægt verður að samþykkja áætlunina.

Aðalatriðið er að standa verður við það sem áður hefur verið ákveðið. Til að mynda verður að klára Dynjandisheiði strax á næsta ári og koma Bíldudalsvegi aftur á þann stað sem hann er á í gildandi áætlun. Eins er augljóst að hraða verður verklokum í Gufudalssveit eins og kostur er úr því sem komið er. Þá verður að rýna mun betur hugmyndir Vegagerðarinnar um forgangsröðun í jarðgangaáætlun og kalla eftir uppfærðri og sjálfstæðri ábatagreiningu, eins og gert var við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Ennfremur þarf að bera kostina saman og meta útfrá umferðaröryggi, tengingu svæða og byggðaþróun. Að öðrum kosti er ekki hægt að taka afstöðu til röðunar forgangslistans.

Breytt forgangsröðun er eitt. Flýting á framkvæmdum er annað og vakna þá spurning um hvernig hægt er að finna nýjar leiðir til fjármögnunar umfram það sem þegar hefur verið ákveðið. Aðkoma ríkisins að samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins getur hér verið leiðarvísir fyrir önnur svæði sem og það frumkvæði sem Innviðafélag Vestfjarða hefur sýnt.

Eftir forskrift samgöngusáttmálans er það eðlileg krafa nú að ríkið komi að sáttmála um flýtingu á uppbyggingu innviða á Vestfjörðum með sveitarfélögum og einkaaðilum eftir atvikum og leggi fram ríkiseignir á svæðinu eins og gert var með Keldnalandið. Eignir ríkisins geta verið margs konar. Til að mynda þau verðmæti sem felast í útboði á framleiðsluheimildum í fiskeldi á Vestfjörðum sem eftir er að ráðstafa eða tiltekið hlutfall af veiðigjöldum sem falla til á svæðinu til næstu 16 ára. Hvað sem útfærslunni líður þá er ljóst að um töluvert fjármagn væri að ræða og fordæmið liggur fyrir í samgöngusáttmálanum.

Innviðaskuld ríkisins á Vestfjörðum er há og hana verður að greiða. Með breyttu viðhorfi og nálgun er hægt að flýta framkvæmdum, finna nýjar leiðir til fjármögnunar og forgangsraða með sanngjörnum hætti. Uppbygging samgönguinnviða setur stóraukinn kraft í alls konar verðmætasköpun á Vestfjörðum landsmönnum öllum til heilla og bætir lífsgæði íbúa til muna.

Teitur Björn Einarsson, alþm.

DEILA