Teitur Björn: hárrétt að kjósa

Teitur Björn Einarsson alþm í Norðvesturkjördæmi.

Teitur Björn Einarsson alþm. (D) segir það hárrétta ákvörðun hjá forsætisráðherra að leggja til þingrof og þar með að boðað verði til kosninga.

„Ég hef frá því ég tók sæti á Alþingi fyrir einu og hálfu ári haft áhyggjur af afstöðu VG til atvinnu fólks og grundvallarréttinda og nú er það ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki sætta sig við kyrrstöðu í mikilvægum efnahagsmálum, sem varða störf fólks og kjör þess til framtíðar litið, gríðarlega miklu. Til að mynda er ekki boðlegt að ríkisstjórn geti ekki náð saman um frekari orkuöflun í landinu eða náð saman um áframhaldandi uppbyggingu fiskeldis eða mikilvægi sjávarútvegsins. Lengra var því ekki komist og því er það eina rétta í stöðunni að leggja þessi mikilvægu mál í dóm kjósenda.“

Um hvað verður kosið?

„Sjálfstæðisflokkurinn leggur verk sín stoltur í dóm kjósenda enda hefur náðst verulegur árangur í efnahags- og atvinnumálum síðustu ár þrátt fyrir margvísleg ytri áföll og áskoranir. En nú er verkefnið annað og kosningarnar munu fyrst og fremst snúast um framtíðina og hvernig kjör fólks geta haldið áfram að batna, hvernig við nýtum sem best tækifærin til að skapa góð og verðmæt störf, til að mynda í fiskeldi og ferðaþjónustu. En til þess þarf græna orku og samkeppnishæft skattaumhverfi og regluverk.“

Hvað fyrir Vestfirðinga?

„Fyrir Vestfirðinga skiptir mestu máli að í landinu séu stjórnvöld sem skilji bæði mikilvægi þess að fjórðungurinn fái að vaxa og dafna áfram á sínum forsendum og leggi uppbyggingunni beint lið með því að setja alvöru kraft í samgönguframkvæmdir og orkuöflun í fjórðungnum og fyrir því mun ég áfram berjast.

Ég hef ekki legið á þeim skoðunum mínum að tafir og frestun á mikilvægum samgöngubótum á Vestfjörðum eru með öllu óboðlegar og hef gagnrýnt innviðaráðherra fyrir að ekki hafi verið staðið við margítrekuð loforð um fjármögnun og áætlanir um verklok eins og til dæmis í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði.

Ég hef eins verið þeirrar skoðunar að Vestfirðingar verði að nýta alla þá kosti sem eru á borðinu til orkuöflunar og styrkingar á raforkukerfinu. Hvalárvirkjun og efling flutningskerfisins frá Hrútafirði að Mjólkárvirkjun eru afar mikilvægar framkvæmdir en ég tel að Vatnsdalsvirkjun verði líka að verða að veruleika til þess að Vestfirðingar geti nýtt öll tækifærin sem til eru til að efla byggðirnar og bæta lífskjör fólks. Tækifærin eru sannarlega til staðar og til framtíðar litið mun gott aðgengi að raforku skipta lykilmáli hvernig til tekst.“          

DEILA