Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri í Strandabyggð segir að ríkisstjórnin hafi fjallað einu sinni um tillögur Strandanefndar en vilji taka aðra umræðu. Ekkert liggi því fyrir enn.
Ríkisstjórnin skipaði nefndina eftir erindi frá sveitarstjórnum á Ströndum í nóvember 2023 og skyldi nefndin leggja til aðgerðir á Ströndum sem lúti að fjárfestingum, verkefnum stofnana og búsetuskilyrði á Ströndum.
Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps lýsti yfir vonbrigðum með skýrsluna nefndarinnar og telur að ekki hafi verið unnið áfram með fjölda hugmynda sem komu fram í upphafi en einblínt var á verkefni sem þegar eru komin í farveg.
Í síðustu viku lagði alþingismaðurinn Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (B) fram fyrirspurn á Alþingi til forsætisráðherra og spyr: „Hyggst ráðherra bregðast við tillögum Strandanefndar sem var stofnuð í byrjun árs 2024 til þess að styrkja stöðu sveitarfélaganna Strandabyggðar, Árneshrepps og Kaldrananeshrepps?“
Tillögur Strandanefndar hafa ekki verið birtar.