Strandabyggð: vantrauststillagan felld

Þorgeir Pálsson er oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð.

Tillaga Matthíasar Lýðssonar um vantraust á Þorgeir Pálsson, oddvita var tekin fyrir í gær á fundi sveitarstjórnar. Tillagan var felld með þremur atkvæðum T listans gegn tveimur atkvæðum A listans.

Fulltrúar A listans, Mtthías Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir lögðu fram bókun og segja þar að greinargerð KPMG hafi hrakið ásakanir Þorgeirs Pálssonar og Hrafnhildar Skúladóttur í garð Jóns Jónssonar fyrrverandi sveitarstjórnarmanns og mæltust þau til þess að þau bæðust afsökunar á ásökunum sínum.

Matthías Lýðsson sagði í samtali við Bæjarins besta að ekki hafi verið orðið við þessum tilmælum en að fulltrúar úr meirihlutanum hefðu tekið munnlega undir bókunina.

Einn sveitarstjórnarmaður meirihlutans, Óskar Hafsteinn Halldórsson, tilkynnti á fundinum að hann myndi senda inn fyrir næsta fund formlega beiðni um lausn frá störfum í sveitarstjórninni.

Að sögn Matthíasar voru um 20 manns viðstaddir sem fylgdust með fundinum.

DEILA