Strandabyggð: vantraust lagt fram á oddvitann

Matthías Lýðsson, bóndi Húsavík í Tungusveit í Strandabyggð.

Matthías Lýðsson, sveitarstjórnarmaður í Strandabyggð hefur lagt fram tillögu um vantraust á Þorgeir Pálsson, oddvita Strandabyggðar. Tillagan er á dagskrá fundar á morgun, þriðjudag, og verður þá tekin til umræðu og afgreiðslu.

Matthías segir að tilefni vantrauststillögunnar séu ummæli Þorgeirs í Bæjarins besta á fimmtudaginn þar sem hann bregst við minnisblaði KPMG vegna greiðslna til Jóns Jónssonar og tengdum stofnunum/fyrirtækjum. Þar sagði Þorgeir Pálsson, oddviti og sveitarstjóri að styrkveitingar til Jóns Jónssonar fyrrv. sveitarstjórnarmanns á 20 ára tímabili hefðu numið 61 m.kr. og vísaði til upplýsingar sem fram komu á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar í ágúst 2021.

Matthías bendir á að í minnisblaði KPMG komi skýrt fram að  „Ekki er annað að sjá en greiðslur til Jóns Jónssonar, kt. 050468-4969 svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetur, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e á árunum 2010-2014 og 2019-2022 hafi verið í samræmi við samninga og samþykktir sveitarstjórnar.

Einnig er ekki annað að sjá en Jón hafi gætt þess sem fulltrúi í sveitarstjórn að víkja sæti þegar framangreindir samningar voru til umfjöllunar.“

Með þessu sé Jón Jónsson hreinsaður af ásökunum um að misnota aðstöðu sína sér til ávinnings. Viðbrögð oddvita séu að ítreka ásakanirnar þrátt fyrir niðurstöðu KPMG. Við það sé ekki hægt að búa.

Andrea K. Jónsdóttir, fyrrv. sveitarstjóri hefur bent á að umræddar greiðslur séu til Galdrasýningar á Ströndum, m.a. vegna reksturs upplýsingarmiðstöðvar ferðamála og til Sauðfjárseturs á Ströndum en ekki til Jóns Jónssonar.

DEILA