Strandabyggð: sveitarstjóri hafði bein afskipti af rannsókn KPMG

Á meðan á rannsókn KPMG á greiðslum sveitarfélagsins til Jóns Jónssonar og tengdra fyrirtækja stóð, hafði Þorgeir Pálsson oddviti og sveitarstjóri Strandabyggðar afskipti af rannsókninni.  Strandabyggð var verkkaupi að þessari úttekt sem var skilað 30. september. Forsagan var að Jón fór fram á óháða rannsókn vegna ásakana starfsmanna Strandabyggðar, Þorgeirs og konu hans, í garð Jóns um meinta sjálftöku hans á fjármunum úr sveitarsjóði upp á rúmar 60 milljónir. Jón tilkynnti um að hann myndi krefjast íbúakosningar um slíka rannsókn, en sveitarstjórn samdi þá við hann um að KPMG gerði úttekt á öllum greiðslum og styrkjum til Jóns og stofnana þar sem hann sat í stjórn á sama tíma og hann var í sveitarstjórn.

Í samþykkt sveitarstjórar 9.7. 2024 þar sem þetta var ákveðið segir að gera eigi „úttekt á öllum greiðslum til Jóns Jónssonar, kt. 050468-4969 svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetu, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e. á árunum 2010 – 2014 og 2019 – 2022.“ Þá segir í samþykktinni að leggja eigi mat á „hvort fullnægjandi samþykktir eða samningar hafi staðið að baki þeim ákvörðunum af hálfu sveitarfélagsins sem lágu til grundvallar umræddum greiðslum/fjárveitingum og hvort þær hafi að öllu leyti verið teknar í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga, samþykkta og siðareglna Strandabyggðar.“ Samþykktin frá sveitarstjórnarfundinum 9. júlí var síðan send KPMG sem verklýsing.

Tæpum hálfum mánuði fyrir lokaskiladag skýrslunnar sendir Þorgeir sem oddviti og sveitarstjóri tölvupóst til KPMG um efnistök í skýrslunni og útvíkkar athugunina og vill að skoðað verði eðli styrkveitinganna, eðli samnings og mótframlag. Fer hann einnig fram á að styrkveitingarnar verði skoðuð í samhengi við fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Þetta eru athyglisvert afskipti í ljósi þess að Þorgeir lýsti sig vanhæfan til umfjöllunar um málið og vék af fundi og einnig þegar skýrslan sjálf var tekin fyrir á sveitarstjórnarfundi í október.

Svo virðist sem að einhverju leyti hafi verið tekið tillit til óska Þorgeirs við skýrslugerðina sjálfa. Þannig er til dæmis fjallað um framlög sveitarfélagsins og þjónustusamninga við sjálfseignarstofnanirnar Strandagaldur og Sauðfjársetur á Ströndum, jafnvel á þeim tíma þegar Jón Jónsson var hvorki í stjórn þeirra, né í sveitarstjórn.

Niðurstaða KPMG varð engu að síður að ekki væri annað að sjá en að greiðslur til Jóns Jónssonar svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetur, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e á árunum 2010-2014 og 2019-2022 hafi verið í samræmi við samninga og samþykktir sveitarstjórnar og að Jón hafi gætt þess sem fulltrúi í sveitarstjórn að víkja sæti þegar framangreindir samningar voru til umfjöllunar.

DEILA