Strandabyggð: miður að ekki var ákveðin forgangsröðun jarðganga á Fjórðungsþingi

Þorgeir Pálsson, oddviti og sveitarstjóri Strandabyggðar segir það miður að ekki náðist samstaða á Fjórðungsþingi Vestfirðinga um síðustu helgi um að taka af skarið í áralangri umræðu um forgangsröðun í gangagerð á Vestfjörðum.  Strandabyggð lagði fyrir þingið tillögu um að Álftafjarðargöng skuli vera næsta framkvæmd í gangamálum á Vestfjörðum. Einnig var tillaga frá Súðavíkurhrepp um Álftarfjarðargöng.

Þess í stað, segir Þorgeir, hafi verið samþykkt tillaga um svokallaða Vestfjarðalínu,en þar eru stjórnvöld hvött til að leita nýrra leiða í fjármögnun gangagerðar á Vestfjörðum og er einnig talið mikilvægt að stjórnvöld gangi til samstarfs við nýlega stofnað Innviðafélag Vestfirðinga, undir forystu Guðmundar Fertrams.

Þessi niðurstaða þýði að haldið er í ályktun frá síðasta Fjórðungsþingi, en þar er talað um að vinna samtímis að rannsóknum og hönnun á Álftafjarðargöngum og Suðurfjarðagöngum (um Mikladal og Hálfdán).

„Fjórðungsþing sker því ekki í gegn hvað forgangsröðun varðar og er það miður og að mínu mati veikleikamerki.  Það geta aldrei verið tvenn göng í fyrsta sæti.  Ákyktunin frá síðasta Fjórðungsþingi var málamiðlun þess tíma.“

Að lokum segir þorgeir Pálsson: „En, þetta er niðurstaðan og við lútum henni og munum taka virkan þátt í þeirri vinnu sem nú er framundan í samgöngumálum á Vestfjörðum.“

DEILA