Stafræn meðmælasöfnun hafin

Landskjörstjórn opnaði í gær stafrænt meðmælakerfi fyrir alþingiskosningarnar 30. nóvember og geta stjórnmálasamtök, sem hafa fengið úthlutuðum listabókstaf frá dómsmálaráðuneytinu nú stofnað stafræna meðmælasöfnun fyrir framboð sín í öllum kjördæmum.

Stafræna meðmælakerfið var unnið í samstarfi Stafræns Íslands og Þjóðskrár og var þróun þess komin áleiðis þegar ljóst varð að kosið yrði í lok nóvember.

Síðustu daga var því unnið hratt að því að ljúka þróun sem til þurfti til að geta opnað kerfið fimmtudaginn 17. október.

Vel samstilltur hópur um stafrænu lausnina frá Stafrænu Íslandi, Landskjörstjórn, Þjóðskrá og hugbúnaðarteymi frá Júní og Stefnu unnu að verkefninu og voru nýttar nokkrar af kjarnaþjónustum Stafræns Íslands, á borð við Ísland.is, innskráning fyrir alla og umsóknakerfi Stafræns Íslands.

Nú þegar hafa níu framboð opnað fyrir móttöku á skráningu meðmælenda það eru allir þeir flokkar sem sæti eiga á Alþingi og auk þess Ábyrg framtíð.

DEILA