Snævar Sölvi er bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2024

Menningarmálanefnd Ísafjarðarbæjar hefur útnefnt kvikmyndagerðarmanninn Snævar Sölva Sölvason sem bæjarlistamann árið 2024.

Útnefningin fór fram í Netagerðinni, skapandi vinnustofum, á Ísafirði laugardaginn 26. október.

Snævar útskrifaðist frá Kvikmyndaskólanum árið 2014 og hefur gert fjórar kvikmyndir, nú síðast Ljósvíkinga sem frumsýnd var fyrr á árinu. 

Í rökstuðnungi menningarmálanefndar segir m.a.:

“ Snævar hlaut ríflega 20 vel rökstuddar tilnefningar. Snævar er einstaklega verðugur bæjarlistamaður sveitarfélagsins. Hann hefur rækilega sannað sig í sínu fagi og þannig unnið mikilvægt starf í uppbyggingu og framgangi kvikmyndagerðar á Vestfjörðum.
Nýjasta kvikmynd hans, Ljósvíkingar, hefur slegið í gegn svo um munar og hlotið verðskuldað lof, bæði frá áhorfendum og gagnrýnendum. Ljósvíkingar tekst á við alvarleg samfélagsleg málefni með húmorinn að vopni og sýnir Ísafjörð í skemmtilegu ljósi.

Sérstaklega ánægjulegt var að sjá aðkomu fjölmargra heimamanna að gerð myndarinnar, bæði fyrir framan og aftan myndavélarnar.“

DEILA