Skelrækt: sótt um aðgerðir ríkisins til þess að endurreisa kræklingarækt

Kræklingarækt.

Samráðshópur stofnana, Vestfjarðastofu, Reykhólahrepps og fleiri hefur verið í samtölum við fulltrúa meirihluta fjárlaganefndar Alþingis um kostnaðarþátttöku ríkis í aðgerðum sem ætlaðar eru til þess að endurreisa kræklingarækt á landinu.

Samráðshópurinn mat einkum tvö atriði sem bregðast þyrfti hvað brýnast við með fjárframlögum úr ríkissjóði, sem eru að sýnagreining skeldýraeiturs fari fram innanlands og að ríkið taki þátt í kostnaði ræktenda við sýnagreiningar. Auk þess lagði samráðshópurinn til að ríkið myndi fjármagna heilnæmiskönnun á innanverðum Breiðafirði og opinbert eftirlit með sýnatökum ræktenda.

Samráðhópurinn hefur sent frá sér minnisblað um málið ásamt beiðni um fjárframlög úr ríkissjóði. Þá hafa Bolungavíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur samþykkt að gerast aðilar að erindinu til Alþingis.

Minnisblaðið verður lagt fyrir fjárlaganefnd í lok þessarar viku eða byrjun næstu og undirritað rafrænt af fulltrúum samráðshópsins auk fulltrúa þeirra þriggja fyrirtækja sem gætu hafið skipulega ræktun á krækling þegar á næsta ári.

Samráðshópurinn var myndaður síðastliðið vor og í honum eru fulltrúar frá Matvælastofnun, Hafrannsóknarstofnun, Matís, Skelrækt, Vestfjarðarstofu og Reykhólahrepps með áheyrnaraðild Matvælaráðuneytis til þess að vinna að úrlausn á þeim hindrunum sem staðið hafa í vegi fyrir uppbyggingu skeldýraræktar og þá einkum kræklingaræktar. 

Óskað er eftir 86 m.kr. framlagi á næstu fjárlögum til kaupa á greiningartæki og kostnað við greiningar. Af fjárhæðinni er gert ráð fyrir 10 m.kr. framlagi til Skelræktar, hagsmunasamtökum ræktenda.

Fram kemur í minnisblaðinu að sem stendur eru þrjú fyrirtæki sem gætu hafið kræklingarækt á næsta ári og staðið undir ræktun á 200-250 tonnum fyrir árið 2025 með tvöföldun framleiðslu að lágmarki hvert ár þar á eftir. Umrædd fyrirtæki eru öll með ræktunarsvæði við innanverðan Breiðafjörð þar sem eru kjöraðstæður til ræktunar á krækling vegna magns þörungasvifa, grunnsævis og hreinleika sjávar.

„Heilnæmiskönnun fyrir innanverðan Breiðafjörð í heild sinni ásamt greiningu sýna innanlands með kostnaðarþáttöku ríkis myndi opna á heilt strandsvæði til umsókna tilrauna- og/eða ræktunarleyfa kræklingaræktar án aukins kostnaðar ræktenda fyrir hvert fyrirhugað og afmarkað ræktunarsvæði. Væri það til þess fallið að leggja grundvöll að atvinnusköpun, fjárfestingum og uppbyggingu á strandsvæðum og byggðum sem hafa ekki aðstöðu til þess að stunda hefðbundna útgerð og hafa sumar verið skilgreindar sem brothættar byggðir.“

DEILA