Skattlagning laxeldis: fréttin sem ekki var sögð

Skjáskot úr Kjastljósi RUV á mánudaginn.

Alþýðusamband Íslands hélt þing sitt á dögunum og fyrsta mál á dagskrá var að fjalla um auðlindir í þágu þjóðar, eins og dagskrárliðurinn hét. Þar var tekin fyrir skattlagning auðlindarentu og fengin norskur hagfræðingur Karen Ulltveit Moe sem kynnti norsku leiðina, nýlega löggjöf um 25% sérstakan skatt af hagnaði stórra eldisfyrirtækja. Í kjölfar erindis var rætt við Karen um fyrirkomulag auðlindagjalda í Noregi og hvernig reynsla Norðmanna gæti nýst Íslendingum eins og segir í kynningu ASÍ um málið.

Það fer ekkert á milli mála hver hinu pólitísku skilaboð verkalýðshreyfingarinnar voru í aðdraganda alþingiskosninga. Skattleggja ber helsta vaxtarbrodd í íslensku efnahagslífi með sérstökum auðlindaskatti og afla tekna í ríkissjóð.

Ríkisútvarpið lét ekki sitt eftir liggja og fékk hagfræðinginn norska í viðhafnarviðtal á mánudaginn í Kastljós. Þar lagði RUV ranglega áherslu á ekki væri tekið auðlindagjald og undirstrikaði það sem Moe sagði að „Því lengur sem stjórnvöld bíða með að skattleggja laxeldi því erfiðara verður það, segir hagfræðingur sem var norskum stjórnvöldum innan handar þegar þau hækkuðu gjöld á laxeldi þar í landi í fyrra.“

Krafan er sérstök skattlagning

Bæði ASÍ og RUV tala fyrir því að laxeldið verði skattlagt sérstaklega umfram aðrar atvinnugreinar, þar sem um auðlindanýtingu er að ræða. Um það má margt segja. Laxeldið er arðvænleg atvinnugrein bæði í Noregi og líka á Íslandi. Auðvitað á eldið að greiða skatta og jafnvel sérstakan skatt eins og sjávarútvegurinn gerir í gegnum veiðigjaldið. Það er einmitt einn af kostunum við laxeldið hvað það er gjöfult fyrir land og þjóð. Greinin greiðir skatta, góð laun, skaffar mikla vinnu fyrir allra handa verktaka og færir okkur útflutningstekjur sem gerir kleift að bæta almenn lífskjör og viðhalda stöðugu gengi krónunnar. Skattaspor laxeldisfyrirtækjanna er einmitt hátt, ólíkt ýmsum öðrum atvinnugreinum sem þó fá jákvæða umfjöllun í Reykjavíkurfjölmiðlunum og tekið er á með silkihöndum.

Hvert er skattaspor stangveiðinnar, atvinnugreinar sem sækir viðskiptavini í hóp erlendra auðkýfinga sem hingað koma í einkaþotum, en er samt svo aum að hún er undanþegin virðisaukaskatti? Að ekki sé talað um ríku Hollywood kvikmyndafyrirtækin sem eru lokkuð til einhverrar starfsemi hér á landi með gylliboðum um 35% endurgreiðslu á öllum kostnaði og ríkið mokar út milljörðum króna á hverju ári til þeirra. Og nú þarf að setja sérstakan skatt, innviðagjald, á skemmtiferðaskip sem koma við á höfnum úti á landi af því það er svo ósanngjarnt gagnvart hóteleigendum á höfuðborgarsvæðinu. Til þess að fækka ferðamönnum á landsbyggðinni og fjölga þeim á höfuðborgarsvæðinu skal nú greitt innviðagjald á landsbyggðinni fyrir litla notkun innviða og sleppa því að rukka þá ferðamenn sem nota innviðina mikið akandi út frá hótelum í Reykjavík.

Kannski verður fjallað um það í Kastljósi – en kannski ekki.

Laxeldið: auðlindagjaldið er komið – og það er hærra en í Noregi

En aftur að sanngjarnri skattlagningu laxeldis, baráttumáli ASÍ og RUV. Það verður ekki sagt að þessi samtök séu fyrst með fréttina. Auðlindagjaldið í fiskeldinu var sett á með lög fyrir fimm árum, árið 2019 og var fyrst innheimt á árinu 2020. Hvað sem segja má um Alþingi og stjórnarflokkana þá biðu þeir ekki boðana þegar ljóst var að laxeldið var góður bísness og efnilegur skattstofn. Lög um fiskeldisgjald var sett á 2019. Skatttekjur hafa vaxið hröðum skrefum og skilar árlega milljörðum króna í ríkissjóð.

Það er örugglega alveg rétt sem norski hagfræðingurinn segir að það verði erfiðara að koma nýjum skatti á ef beðið er með það. RUV hefði getað slegið sér upp með því að upplýsa áhorfendur um að þegar væri búið að koma skattinum á og að hann væri bara nokkuð ríflegur.

En einhverra hluta vegna þá kom sú frétt ekki. Kannski vegna þess að þá hefði uppleggið verið alveg ónýtt. Það þarf ekki að berjast fyrir því í aðdraganda alþingiskosninga að koma skattinum á, að greinin greiði sanngjarnan hlut af arðvænlegri starfsemi í ríkissjóð. Því markmiði hefur þegar verið náð. En kannski vill RUV og ASÍ líka ekki segja frá því núna fyrir kosningar. Kannski finnst þeim betra að kjósendur haldi að laxeldið lifi í einhverju lágskattaumhverfi vondra ríkisstjórnarflokka. Hver veit. Vegir RUV eru að mörgu leyti órannsakanlegir.

Hæsta skattlagningin á laxeldi

RUV og ASÍ hefðu getað leitað sér upplýsingar um skattlagninguna á laxeldið og sagt okkur fréttirnar. Hagsmunasamtök fiskeldisins, samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, hafa látið gera samanburð á skattlagningu laxeldis í þremur löndum Íslandi, Noregi og í Færeyjum. Í þeim samanburði var auðvitað tekið mið af nýju lögunum í Noregi um 25% sérstaka skattinn.

Niðurstaða SFS er að íslensku laxeldisfyrirtækin greiði hæstu skattana. Með öðrum orðum ef tekið yrði upp hér á landi norska löggjöfin þá myndu skattarnir á laxeldið lækka.

Þetta er eiginlega stóra fréttin í málinu. Íslensk stjórnvöld eru fremst meðal jafningja í skattlagningu atvinnugreinarinnar. Þetta er fréttin sem ekki var sögð. Atvinnugreinin á Vestfjörðum og Austfjörðum, sem þó er enn í uppbyggingu og mikilli fjárfestingu, er skattlögð hiklaust og undanbragðalaust og má segja vægðarlaust.

Hvar eru sérstöku skattarnir á kvikmyndagerð, stangveiði, hótelrekstur í Reykjavík eða jöklaskoðunarferðir í þjóðlendurnar?

Niðurstaðan er að laxeldið er sérstaklega gjöfult fyrir hið opinbera. Öflugt laxeldi gefur ríkinu miklar tekjur og almennan ávinning og það er öllum fyrir bestu að nýta auðlindir fjarðanna til laxeldis. Með öðrum orðum það á að tala fyrir uppgangi laxeldisins og treysta það í sessi með traustum lagagrundvelli og góðu eftirliti. Atvinnugreinin mun þróast og finna lausnir á umhverfislegum áskorunum eins og það heitir nú til dags.

Í stuttu máli segir SFS stöðuna vera þessa:

  • Í Noregi er lagður 25% auðlindaskattur á fiskeldisfyrirtæki, en skatturinn gildir aðeins um þann hluta virðiskeðjunnar sem á sér stað í sjónum. Fyrir stærri, lóðrétt samþætt fyrirtæki (þar sem virðiskeðjan samanstendur t.d. af hrogna- og seiðaframleiðslu, áframeldis, pakkningu, sölu og markaðssetningu, er raunskatthlutfallið á heildina nær 10%. Í Noregi er einnig frítekjumark upp á 70 milljónir NOK, sem er dregið frá hagnaði áður en auðlindaskattur er reiknaður.
  • Í Færeyjum er stighækkandi gjaldtaka þar sem gjaldhlutfall fer eftir alþjóðlegu markaðsverði. Þótt íslenska kerfið byggi á færeysku fyrirmyndinni, þá er það færeyska mun sveigjanlegra með fleiri gjaldþrep og nú einnig með framleiðslukostnað í reikningnum.
  • Á Íslandi er gjaldtakan einnig byggð á alþjóðlegu meðalverði á laxi. Gjaldhlutföllin eru þrjú, en undanfarið hefur hæsta hlutfallið ávallt verið greitt. Það var nýlega hækkað úr 3,5% í 4,3%. Gjaldið er lagt á í þrepum og árið 2020 var greiddur 1/7 hluti gjaldsins. Í ár er greitt 5/7 hluta, og fullt gjald verður greitt árið 2026.

Þetta mun RUV kannski segja okkur síðar. Ég spái því að það verði ekki fyrr en eftir kosningar. En hver veit.

-k

DEILA