Samstarfsverkefni Nettó og Ljóssins hefur skilað sjö milljónum króna, sem renna nú óskipt til endurhæfingar fólks með krabbamein. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Nettó um átak í samstarfi við Ljósið.
Þetta er annað árið í röð sem Nettó og Ljósið efna til samstarfs í júlímánuði, undir heitinu „Kveikjum Ljósið í júlí“ en í fyrra söfnuðust fimm milljónir kr.
Í ár var það myndlistarkonan Unnur Stella Níelsdóttir, eigandi Start Studio, sem hannaði listaverk fyrir átakið. Verk Unnar Stellu er af kaffihlaðborði og ber heitið Skína. Prýddi það sundtösku sem seld var í verslunum Nettó auk þess sem selt var sérhannað Jenga-spil.
Auk þess seldi Nettó klósettpappír og safa þar sem ágóði sölunnar rann til átaksins. Átakið gekk sem fyrr segir vonum framar og söfnuðust sjö milljónir króna. Þá mun sá varningur sem enn er óseldur vera til sölu hjá Ljósinu í vetur og allur ágóði áfram renna til stuðnings við Ljósið.