Samfylkingin: samkeppni um efstu sætin

Gylfi Þór Gíslason, Ísafirði.

Gylfi Þór Gylfason, Ísafirði tilkynnti nú síðdegis að hann gæfi kost á sér í efstu sæti lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjödæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.

„Ég hef verið virkur í Jafnaðarflokki Íslands í tugi ára. Starfaði lengi með Alþýðuflokki og er núna formaður Samfylkingarinnar á Vestfjörðm og formaður Verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar. Í þessum stjórnum hef ég látið verkin tala og komið þessum félögum á kortið. Eins og tekið hefur verið eftir er Samfylkingin á góðu skriði undir forystu Kristrúnar Frostadóttur. Ég brenn fyrir hugsjónum jafnaðarstefnunar eins og allir vita sem mig þekkja. Ég er tilbúinn í slaginn ef ég fæ til þess brautargengi.“

Á laugardaginn gaf Hannes S. Jónsson, Akranesi kost á sér fyrir Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi. „Ég gef kost á mér á framboðslista flokksins í Norðvesturkjördæmi í kosningunum 30. nóvember næstkomandi og sækist ég eftir því að vera í öðru af tveimur efstu sætum listans.“

Hannes var áður í Sjálfstæðisflokknum en segist hafa sagt skilið við hann fyrir nokkru. „Með nýrri forystu Samfylkingar hefur flokkurinn hrist upp í pólitíkinni og fært jafnaðarflokkinn aftur nær fólkinu í landinu. Ég tel að við sem þjóð þurfum á traustri forystu að halda á þessum tímum sem við lifum. Samfylkingin býður upp á opinská stjórnmál og nýtt upphaf fyrir Ísland.“

Fyrr í dag tilkynnti Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ um framboð sitt og sagðist hafa ákveðið að gefa kost á sér til að leiða lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi í komandi alþingiskosningum. „Ég hef verið lengi virk í Samfylkingu og verið hluti af forystu flokksins síðustu ár. Saman höfum við breytt Samfylkingunni og fært hana nær fólkinu í landinu. En nú er kominn tími á breytingar við stjórn landsins. Við erum til þjónustu reiðubúin, fáum við til þess traust hjá þjóðinni, og ég vil mitt af mörkum á Alþingi.“

Uppstillingarnefnd er að störfum og er búist við því að hún skili af sér tillögu um skipan listans í vikunni.

DEILA