Safnahúsið Ísafirði: Marga fjöruna sopið

Ólöf Dómhildur
23.10 2024
Stigagangur Safnahússins við Eyrartún

Sýningin Marga fjöruna sopið verður opnuð miðvikudaginn 23. október 2024, kl. 17:00 á stigagangi Safnahússins við Eyrartún. Sýningin er hluti af menningar- og listahátíðin Veturnóttum á Ísafirði sem fer fram dagana 24.-27. október.

Marga Fjöruna Sopið er orðatiltæki sem táknar visku og þroska af fenginni reynslu. Sjórinn brotnar á mjúkum líkama hennar, þrýstist í sandinn, seytlar gegnum yfirborðið og gleypir strandlengjuna. Rís, breiðir úr sér, skarast. Það sem leynist undir yfirborðinu mun birtast. Breytt. Opinberað. Blautt. Höfuð stendur upp úr vatninu. Sólargeislar skína á hálflokuð augun þar sem hún horfir upp úr bláum boga sem skiptir líkama hennar í tvennt. Kampavín í krystal. Sætar búbblur leita á sprungnar varir. Saltur andvari finnur bragðið af hlátri. Lífinu fagnað með sopa. Fyrir neðan sparka fætur gegn þungu, sleikjandi salti. Gamalt sár stingur. Enginn tími til að stoppa. Ljósgeisli liðast í gegnum vatnið. Spegilmynd brostinna brosa leitar augna til að blinda. Öðruvísi sjón til að lifa af. Fjör í myrkrinu.

ÓLÖF Dómhildur (1981) útskrifaðist af myndlistarbraut frá Listaháskólanum í Reykjavík árið 2006, af ljósmyndabraut frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 2008 og í Hagnýtri menningarmiðlun 2015. Ólöf Dómhildur hefur unnið mikið með ljósmyndina sem miðil og í verkum sínum skoðar hún staðalímyndir og kynjaðar samfélagshugmyndir.

Aðgangur ókeypis
Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði.

DEILA