Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki til að fjölga óstaðbundnum opinberum störfum á landsbyggðinni.
Ríkisstofnanir geta sótt um styrki til að ráða í óstaðbundin störf á þeirra vegum utan höfuðborgarsvæðisins. Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra kynnti áform um úthlutunina fyrr í haust en veittar verða allt að 150 milljónir kr. í þessum tilgangi af byggðaáætlun.
Ríkisstofnanir sem hafa aðsetur á höfuðborgarsvæðinu geta sótt um styrkina vegna starfa utan svæðisins eða verða færð frá höfuðborgarsvæðinu frá og með 1. nóvember 2024. Styrkjum er ætlað að koma til móts við ferðakostnað og leigu á aðstöðu í vinnustaðaklösum. Ekki verða veittir styrkir vegna tímabundinnar fjarvinnu eða blendingsstarfs, þ.e. starfs sem unnið er bæði utan og innan höfuðborgarsvæðisins.
Veita má styrk til stofnunar vegna starfs til allt að þriggja ára. Hámarksstuðningur við hvert starf getur numið allt að 2 milljónum króna á ári. Byggðastofnun mun annast umsjón með úthlutun styrkja og gerð samninga og verður árangur af verkefninu metinn fyrir lok árs 2025.