Örnólfsdalsárbrú er elsta hengibrú landsins sem enn stendur. Hún var byggð árið 1899 en gerð upp af miklum myndugleik af Vegagerðinni árið 2011.
Nýverið voru sett upplýsingaskilti við brúna til að fræða gesti og gangandi um þetta merkilega samgöngumannvirki.
Í lok 19. aldar lágu helstu leiðir í Borgarfirði sunnan Hvítár um brú hjá Kljáfossi og um Grjótháls yfir í Norðurárdal. Þá var Örnólfsdalsá, sem er dragá, brúarlaus og oft slæm torfæra á þessari mikilvægu póstleið. Það þóttu því nokkur tímamót þegar brúin yfir Örnólfsdalsá var byggð árið 1899 og vígð með viðhöfn 4. október sama ár. Brúin er 33 m löng og 2,74 m á breidd, byggð úr stáli, og er elsta uppistandandi hengibrú landsins.
Sex hengibrýr af sambærilegri gerð voru byggðar á Íslandi á árunum 1891 til 1905 og mörkuðu þær byltingu í samgöngum um landið. Fyrsta brúin var Ölfusá við Selfoss, byggð árið 1891. Þjórsá var brúuð árið 1895 og síðan Örnólfsdalsá. Fjórða brúin yfir Hörgá í Eyjafirði árið 1901 og árið 1905 sams konar brýr yfir Sog og Jökulsá í Öxarfirði.
Örnólfsdalsábrú var hönnuð og byggð vel fyrir bílaöld og því ekki gerð fyrir þá þungu umferð sem síðar kom á hana. Þrátt fyrir það var hún í fullri notkun fram til ársins 1966, eða í 67 ár, þar til ný steinsteypt brú neðar á ánni tók við hlutverki hennar.
Í upphafi þessarar aldar var ljóst að endurbyggingar væri þörf til að vernda þetta menningarverðmæti. Endurgerð brúarinnar, þar sem stál burðarvirki var endurbyggt, timburgólf endurnýjað og síðari tíma steypa hreinsuð utan af einstökum hlöðnum stöplunum, lauk árið 2011. Þá var aðkoman að norðan einnig færð í upprunalegt horf.
Í lok sumars voru sett upplýsingaskilti við brúna til að fræða gesti og gangandi um þetta merkilega samgöngumannvirki.
Af síðu Vegagerðarinnar vegagerdin.is