Óraunhæft að samgönguáætlun verði samþykkt fyrir kosningar

Stefán Vagn Stefánsson við upphaf Fjórðungsþings. Mynd: aðsend.

Fram kom í ávarpi Stefáns Vagns Stefánssonar alþm. fyrsta þingmanns Norðvesturkjördæmis við upphaf Fjórðungsþings Vestfirðinga í morgun að hann hefði áhyggjur af framkvæmdum í samgöngumálum á næsta ári þar sem óraunhæft væri að ný samgönguáætlun verði samþykkt fyrir alþingiskosningarnar í lok nóvember. Hann sagði ljóst að það yrði ekki fyrr en um mitt næsta ár sem ný ríkisstjórn v´ri komin á fót og búin að leggja fram og fá afgreidda nýja samgönguáætlun. Á meðan væri í raun framkvæmdastopp í samgöngumálum.

Stefán Vagn sagði að þingmenn væru ákveðnir í því að afgreiða ný fjárlög fyrr miðjan nóvember og þar myndu vera fjárveitingar til samgöngumála, en hins vegar væri mælt fyrir um skiptu fjármagnsins á einstakar framkvæmdir í samgönguáætlun.

Fram hefði komið sú hugmynd að ákveða í fjárlögunum nokkrar framkvæmdir sem fengju fjármagn og ef það gengi eftir yrði hægt að setja þær framkvæmdir í gang strax. Þetta gæti hins vegar aðeins gengið ef fullt samkomulag yrði um þær framkvæmdir sem þannig yrðu teknar út úr.

Fjórðungsþingið er haldið að Laugarhóli í Bjarnarfirði.

DEILA