Ólafur Adolfsson: atvinnumál og verðmætasköpun hugleikin

Spurt er um oddvita Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi  Ólaf Adolfsson, hver er þessi maður og hvaða sögu hefur hann að segja.

Ólafur Adolfsson er 57 ára lyfsali í eigin rekstri og rekur þrjár lyfjabúðir undir heitinu Apótek Vesturlands, á Akranesi, í Borgarnesi og í Snæfellsbæ (Ólafsvík) og Reykjavíkur Apótek í Vesturbæ Reykjavíkur.  Hann ólst upp í Ólafsvík á Snæfellsnesi, dæmigerðu sjávarþorpi þar sem fjaran var aðal aðdráttarafl barna í starfi og leik.  Á þessum tíma voru sjónvarpslausir fimmtudagar og því var ekki óalgengt að barnaárgangar teldu fleiri en 30 börn í árgangi.  Börn þessa tíma lærðu snemma að vinna í fiski og var hans fyrsta vinna að skera spyrðubönd af skreið og þá var börnum treyst fyrir hárbeittum hnífum en þó undir vökulum augum roskinna eftirlitsmanna. Síðar lá leiðin inn í Hraðfrystihús Ólafsvíkur þar sem við tók flökunarsalurinn og síðar frystingin sem oft gat verið strembin fyrir óharnaða unglinga.  Að grunnskóla loknum lá leiðin í framhaldsskóla og varð Menntaskólinn á Akureyri ofan á eftir nokkrar vangaveltur um Menntaskólann á Ísafirði og Egilsstöðum.  Á menntaskólaárunum kynntist Ólafur nokkrum Sauðkrækingum sem áttu eftir að kveikja áhuga hans á knattspyrnu og körfubolta og varð úr að nokkur sumur meðan á háskólanámi stóð spilaði hann knattspyrnu með Tindastóli og síðar einnig körfuknattleik.  Árið 1991 bauðst Ólafi að ganga til liðs við Skagamenn sem höfðu þá nýlega fallið úr efstu deild og hafði Guðjón Þórðarson hinn sigursæli þjálfari verið valinn til að stýra liðinu eftir að hafa gert KA menn að meisturum.  Guðjón ákvað að treysta á innsæi sitt um að eitthvað væri nú spunnið í piltinn og gaf honum tækifæri til að sýna sig og sanna.  Það er skemmst frá því að segja að fyrir Ólaf var þetta upphafið að sannkölluðu ævintýri og á Skaganum er tímabilið sem í hönd fór gjarnan nefnt gullaldartímabilið hið síðara en hið sigursæla knattspyrnulið IA vann fyrst aðra deildina 1991 og síðan fyrstu deildina 5 ár í röð eða frá 1992 til 1996 og bikarmeistarar 1993 og 1996.  Margir vilja halda því fram að liðið sem sigraði tvöfalt árið 1993 og lagði Feyenord að velli á laugardalsvelli sama ár sé eitthvert besta lið í sögu íslenskrar knattspyrnu.  Ólafur á einnig 21 landsleik með íslenska landsliðinu í knattspyrnu.  

En nú viltu hasla þér völl í stjórnmálum, hvað veldur?

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á stjórnmálum og starfað nokkuð að sveitarstjórnarmálum, sat í bæjarstjórn á Akranesi 2014-2022 leiddi lista Sjálfstæðismanna á Akranesi kjörtímabilið 2014-2018 þar sem sjálfstæðisflokkurinn vann sögulegan sigur og fékk hreinan meirihluta í bæjarstjórn.  Þá hef ég gengt ýmsum trúnaðaðrstörfum í pólitík má þar nefna, að vera varamaður í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 2014-2018, varaformennska í ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðsins til sama tíma og sit í dag í verkefnisstjórn um Rammaáætlun sem hefur það hlutverk að veita umhverfis, orku og loftslagsráðherra ráðgjöf um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Áhugamál mín í pólitík eru nokkuð víðtæk en fyrst vil ég telja heilbrigðismál enda tengjast þau ævistarfi mínu og þá ekki síst áskoranir í heilbrigðisþjónustu í dreifbýli.

Einnig vil ég nefna atvinnumál og verðmætasköpun á breiðum grunni enda eru þau öllum sem gætt hafa hagsmuna sveitarfélaga hugleikin.  Þá má einnig nefna samgöngumál og útbætur í þeim málaflokki ekki síst til að auka samkeppnishæfni fyrirtækja sem kjósa að setja sig niður á landsbyggðinni og þá í mínu tilfelli Norðvesturkjördæmi.

Fiskeldi og orkumál

Þú varpar til mín spurningum um fiskeldi og orkumál á Vestfjörðum og vona ég að þú virðir það við mig varðandi orkumálin að ég tjái mig ekki um einstaka virkjunarkosti þar sem ég á, eins og komið er fram, sæti í verkefnisstjórn um rammaáætlun en almennt get ég sagt að ég er hlynntur aukinni raforkuöflun og ekki síður að langþráð bragarbót verði gerð á raforkuöryggi með bættum tengingum og sterkara flutningsneti.  Varðandi fiskeldið vil ég segja að við erum í dauðafæri til þess að auka verðmætasköpun á Vestfjörðum með uppbyggingu fiskeldis, og það er gaman að sjá þann kraft og bjartsýni sem fylgir uppbyggingu þessarar atvinnugreinar.  Það er því mikilvægt að við vöndum okkur við verkið, ekki síst í ljósi þess að endanleg löggjöf er ekki komin fram.  Þá er mikilvægt að við setningu laganna sé virkt samtal við alla leikendur svo tryggja megi að fiskeldi á Íslandi fái tækifæri til að blómstra í sátt við guð og menn. 

Það er mikið verk fyrir höndum hjá okkur frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins og næstu vikur verða ansi þéttar. Við munum heimsækja allt Norðvesturkjördæmi til að kynna okkur og hlusta eftir því  hvað brennur á íbúum og eigendum fyrirtækja og stofnana.

Við hlökkum til að hitta kjósendur og göngum glöð til verka.

DEILA