Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt ráðningu Magnúsar Arnars Sveinbjörnssonar í stöðu sviðsstjóra fjölskyldusviðs.
Magnús hefur starfað lengst af hjá Reykjavíkurborg, þar á meðal sem skólastjóri Vinnuskóla Reykjavíkur. Síðastliðið haust tók hann við stöðu deildarstjóra rekstrar hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
Hann er nú í diplómanámi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands og býr yfir fjölbreyttri reynslu úr mannauðsmálum, opinberri stjórnsýslu, barna- og unglingastarfi sem og þverfaglegu samstarfi við félagsþjónustu, skóla og barnavernd.