Ný bók: Ég skal hjálpa þér – saga Auriar

Þann 24. október kemur út hjá Forlaginu bókin „Ég skal hjálpa þér – saga Auriar“. Í bókinni er sögð saga Árnýjar Aurangasri Hinriksson, sem ávallt er kölluð Auri. Hún fæddist í Sri Lanka og ólst þar upp við allsnægir hjá vel stæðri fjölskyldu en giftist íslenskum manni, Þóri Hinrikssyni og fluttist til Íslands með honum snemma á níunda áratugnum.

            Höfundur bókarinnar, Herdís M. Hübner, segir:

            „Margir Íslendingar kannast við Auri úr sjónvarpinu, til dæmis úr þáttunum Leitin að upprunanum og fleiri slíkum. Hún er konan sem hjálpar ættleiddu fólki frá Sri Lanka að finna líffræðilegar fjölskyldur sínar þar í landi. Það er stórkostlegt starf og hefur breytt lífi margra sem hafa notið aðstoðar hennar við leitina enda veitti forseti Íslands henni fálkaorðu, æðstu viðurkenningu sem hægt er að fá á Íslandi, fyrir það starf.

            En hver er þessi kona?

            Er hún kannski indversk prinsessa, eins og við héldum á Ísafirði þegar hún kom hingað fyrst?  Það fór auðvitað ekkert á milli mála þegar hún kom vestur, að hér var prinsessa á ferð, í silkisari og öll í gulli, með sítt svart hár niður í mitti. Og hún verður alltaf prinsessan okkar. En indversk er hún auðvitað ekki.

            Hún er líka fyrrverandi sjómannskona og fiskverkakona til fjölda ára. Gerðist seinna framhaldsskólakennari á Höfn í Hornafirði, varð heimsfrægur kokkur hvar sem hún fór og hjálparhella öllum sem hún hefur hitt á lífsleiðinni.

            Hún hefur ferðast víða um heim, lifað viðburðaríku lífi og búið í mörgum löndum, meðal annars Indlandi þar sem hún bjó í 4 ár, Íran og Barein og víðar um lengri og skemmri tíma, þar sem hún og Þórir, maðurinn hennar unnu fyrir Sameinuðu þjóðirnar eða aðrar alþjóðastofnanir.

            Hún hikaði ekki við að rífa sig upp þegar hún hafði fengið nóg af íshúsinu, komin hátt á sextugsaldur, þá lét hún gamlan draum rætast og gerðist kennari. Hún byrjaði á Patró, fór svo suður, kenndi nokkuð víða og stundaði nám til kennsluréttinda á meðan. Og fyrst hún var nú byrjuð á háskóanáminu, hætti hún ekki fyrr en hún var komin með doktorspróf, bæði frá Háskóla Íslands og háskóla í Sri Lanka.

            Líf Auriar hefur ekki verið neinn dans á rósum og hún hefur oft mætt mótlæti um ævina. Margur hefði bugast af minna. En hún hefur aldrei gefist upp og kemur alltaf standandi – og brosandi niður.

            Bókin heitir: Ég skal hjálpa þér. Það er vegna þess að allir sem tala um Auri, frá því að hún er lítil stelpa í skóla og til þessa dags, nefna hjálpsemi sem hennar helsta eiginleika, hún hefur alltaf verið að hjálpa öðrum og er enn að.“

            Minnt skal á að útgáfudagur bókarinnar er 24. október – sem er einmitt afmælisdagur Auriar.

DEILA