Neyðarlínan harmar mistök vegna boðunar á Ísafirði og biðst afsökunar

Jón Svanberg Hjartarson.

Jón Svanberg Hjartason, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að pöntun á sjúkrabíl í síðasta mánuði vegna atviks á Ísafirði hafi misfarist. Neyðarlínan harmar þessi mistök og biður alla hlutaðeigandi afsökunar á því, þann sem aðstoðina þurfti, tilkynnandann sem hringdi í 112 og áhöfn sjúkrabifreiðarinnar á Ísafirði.

Svar Jóns Svanbergs í heild:

„Mér hefur verið framsent erindi frá þér með fyrirspurn um afgreiðslu máls er varðar ósk um sjúkrabíl á Ísafirði þann 24. september sl. og vísa einnig í samtal okkar frá í gær vegna málsins. Í framhaldi fyrirspurnarinnar og samtalsins kallaði ég eftir upplýsingum um afgreiðslu málsins hér hjá Neyðarlínunni.

Sú athugun hefur leitt í ljós að mistök voru gerð í framhaldi innhringingarinnar. Þau felast í því að boðun sjúkrabíls dróst og hafði ekki verið framkvæmd þegar Neyðarlínunni barst önnur hringing þar sem spurt var um stöðu sjúkrabílsins en í því símtali kom fram að aðstoð væri komin og því ekki lengur þörf á sjúkrabíl.

Við skoðun í skráningarkerfi Neyðarlínunnar má sjá að innhringing með ósk um sjúkrabíl er skráð kl. 14:35:27. Eftir að neyðarvörður hefur staðreynt tilvik og staðsetningu í samtali við innhringjanda er gerð svokölluð “pöntun” í skráningarkerfinu á sjúkrabíl kl. 14:37:37. Sú pöntun hafði hins vegar ekki verið afgreidd með boðun til áhafnar sjúkrabíls á Ísafirði þegar hringt var aftur u.þ.b. 10 mínútum seinna eða kl. 14:47:16.

Yfirleitt er það svo að pöntun á sjúkrabíl er samstundis tilkynnt hlutaðeigandi áhöfnum sjúkrabíla og svo hefði átt að vera í þessu tilfelli. Það eru hins vegar dæmi þess að slíkar pantanir tefjist ef áhafnir sjúkrabíla eru uppteknar við aðra sjúkraflutninga eins og gerist oft á höfuðborgarsvæðinu, þar sem álag í sjúkraflutningum er mikið. Áhöfnunum er þá úthlutað fyrirliggjandi aðstoðarbeiðnum eftir að þær losna úr yfirstandandi verkefnum. Því var ekki að heilsa á Ísafirði og því er ljóst að boðun áhafnar sjúkrabifreiðarinnar tafðist.

Í viðkvæmum störfum Neyðarlínunnar er lítið svigrúm til mistaka og geta þau hreinlega haft áhrif á líf og heilsu fólks. Þetta erum við, starfsfólk Neyðarlínunnar vel meðvituð um. Við erum líka mjög meðvituð um það að þar sem hugur og hönd koma að málum þar geta orðið mistök. Í ljósi þess eru öll frávik skoðuð sérstaklega með það að markmiði að leita leiða til að lágmarka mistök og bæta verklag og ferla. Við leitumst eftir því að allar upplýsingar um mistök eða frávik komi fram og slík tilvik eru nýtt til rýni og úrbóta. Við tökum því öllum slíkum ábendingum, hvort heldur koma frá starfsfólki sjálfu, málsaðilum eða fjölmiðlum með það að markmið að leita leiða til að gera betur. Rýni þessa atviks er í meðförum hér innanhúss.

Við rýni sem þessa leitumst við m.a. að greina bæði orsök og afleiðingu. Við skoðun verkefna þessa tiltekna dags og á þeim tíma sem þessi tilkynning barst þá eru fimm neyðarverðir á vakt. Hins vegar var álag á þessum tíma gríðarlega mikið sem er sennilega megin orsakavaldur þess að afgreiðsla þessa tiltekna máls misfórst. Má þar nefna að stórri aðgerð var að ljúka vegna banaslyss í Brúarárfossi ásamt því að banaslys/umferðarslys varð við Fossá en fyrstu viðbragðsaðilar voru að koma á þann vettvang þegar áðurnefnd ósk um sjúkrabifreið barst frá Ísafirði. Þá eru ótalin önnur verkefni sem voru í gangi á sama tíma en að jafnaði berast u.þ.b. 650 símtöl á sólarhring í neyðarnúmerið 112. Við slíka atburði sem hér eru nefndir myndast gríðarlegt álag, bæði í innhringingum í neyðarnúmerið 112 sem og í fjarskiptum við boðun viðbragðsaðila og aðstoð við þá á vettvangi. Það hafði þær afleiðingar að pöntun sjúkrabíls á Ísafirði tafðist/misfórst.

Neyðarlínan harmar þessi mistök og biður alla hlutaðeigandi afsökunar á því, þann sem aðstoðina þurfti, tilkynnandann sem hringdi í 112 og áhöfn sjúkrabifreiðarinnar á Ísafirði.“

DEILA