Metsumar í komum skemmtiferðaskipa – hugleiðing hafnarstjóra Ísafjarðarbæjar

Hilmar Lyngmó hafnarstjóri.

Nú hefur síðasta skemmtiferðaskipið kvatt okkur að sinni og að baki er enn eitt metsumarið í skipakomum til Ísafjarðarbæjar.  Alls fengum við 186  slíkar heimsóknir í ár, þar af þrjár til Þingeyrar.  Raunar má segja að heimsóknirnar hafi verið 192 ef við teljum með þau skip sem komu í örstutt stopp vegna tollamála eða annarra smáerinda, en hleyptu ekki farþegum í land. Tíu sinnum þurftu skip að hætta við komu til okkar, oftast vegna þess að slæmt veður setti strik í reikninginn.  

Farþegafjöldinn sem skemmtiferðaskipin báru hingað til okkar var tæplega 235 þúsund manns og tekjur hafnarsjóðs af þessari starfsemi námu um það bil 756 milljónum króna. Tekjur samfélagsins í heild voru auðvitað mun hærri.

Mikill mannfjöldi, gott skipulag

Í upphafi sumars bar talsvert á áhyggjum af því að mannfjöldinn á götum Ísafjarðar gæti orðið yfirþyrmandi á fjölmennustu skipadögunum, enda stefndi í að farþegar yrðu yfir níu þúsund á stærsta deginum. Það má hins vegar segja að veðrið, sem fæstir höfðu ástæðu til að dásama í sumar, hafi gengið í lið með okkur því nokkur skip þurftu að breyta áætlunum sínum vegna brælu. Stóri níu þúsund manna dagurinn endaði af þeim sökum í um það bil fjögur þúsund gestum, sem telst vel viðráðanlegur fjöldi hér á svæðinu.

Við fengum þó einn dag með rúmlega átta þúsund gestum og einu sinni fór fjöldinn yfir sjö þúsund. Á slíkum dögum reynir verulega á skipulagið og innviðina og það var aðdáunarvert hversu vel tókst til. Fyrirtækin sem taka á móti gestunum á bryggjunni og sjá þeim fyrir afþreyingu stóðu sig með afbrigðum vel og eiga mikið hrós skilið fyrir gott skipulag og mikið framboð. Líklega hefur gestum svæðisins aldrei staðið jafn mikil og fjölbreytt afþreying til boða og einmitt nú í sumar.  Margir farþegar kusu líka að skoða sig um á eigin vegum og mátti sjá að t.d. gamli bærinn og göngustígarnir uppi í hlíð nutu mikilla vinsælda.  Verslanir, söfn og aðrir þjónustuaðilar voru líka alltaf á tánum og það var ánægjulegt að sjá að fleiri staðir en áður voru opnir á sunnudögum.

Fáir skipalausir dagar

Ef við skoðum annasömustu mánuði sumarsins þá voru ekki margir skipalausir dagar hér á Ísafirði þetta árið. Í júní voru þeir sjö talsins, í júlí voru þeir þrír og í ágúst voru þeir fimm. Auðvitað var farþegafjöldinn misjafnlega mikill frá degi til dags, allt frá hundrað manns upp í rúmlega átta þúsund. Og þótt þetta færi miklar tekjur inn í samfélagið þá dylst engum að skipakomum fylgir vitaskuld líka álag og áreiti fyrir marga bæjarbúa. Það er því full ástæða til að þakka íbúum Ísafjarðarbæjar fyrir alla þolinmæðina og vinsemdina. Við fengum reglulega að heyra það frá farþegum skipanna að íbúar hér væru einstaklega vingjarnlegir og góðir heim að sækja.

Vissulega förum við þó ekki í gegnum heilt sumar með 235 þúsund gestum án hnökra.  Stundum var svo mannmargt á götum bæjarins að bílaumferð gekk hægar en venjulega. Stundum var örtröð í verslunum og á veitingastöðum, stundum varð klósettpappír eftir við göngustíga og ugglaust mætti telja fleira upp.  Við erum þó alltaf að bæta okkur og bregðast betur við. Það kom t.d. mjög vel út að breyta svæðinu við Silfurtorg í göngugötu á fjölmennustu skipadögunum. Almenningsklósettum í bænum var fjölgað frá fyrri sumrum og almennt er óhætt að segja að við höfum lært af reynslu undanfarinna ára og staðið okkur betur en áður, þótt auðvitað sé enn svigrúm fyrir framfarir.

Viðburðasjóðurinn

Ein nýlundan sem tekin var upp í sumar í tengslum við komur skemmtiferðaskipa er Sumarviðburðasjóður hafnarinnar, en þar gat listafólk sótt um styrki til að halda alls kyns viðburði og uppákomur. Alls var úthlutað fimm milljónum króna til tólf verkefna og er óhætt að segja að þetta hafi sett skemmtilegan svip á bæjarlífið í sumar og glatt bæði heimafólk og gesti. Stefnt er að því að endurtaka leikinn næsta sumar.

Áframhaldandi uppbygging

Framkvæmdum við uppbyggingu aðstöðunnar á hafnarsvæðinu á Ísafirði er hvergi nærri lokið, en væntanlega mun taka 2-3 ár í viðbót að klára þau verkefni sem þegar er búið að skipuleggja. Vonandi tekst að klára dýpkunina við Sundabakka að fullu fyrir næsta sumar og þá munum við líka taka í gagnið  nýtt rútustæði á höfninni, sem klárað var að malbika nú fyrir skemmstu. Út fá því verða gerðar nýjar gönguleiðir frá hafnarsvæðinu sem munu færa stóran hluta gangandi umferðar fjær vinnusvæði flutningabíla, lyftara og annarra vinnuvéla.   

Nýtt landamærahús fyrir hafnarsvæðið er nú í hönnun og vonandi hefjast framkvæmdir við það strax á næsta ári. Þá eru einnig uppi áform um að smíða ný salernishús sem myndu leysa af hólmi þau gámahús sem notuð hafa verið í sumar.

Enn á eftir að bæta úr aðstöðunni við „tenderbryggjuna“ svokölluðu, en þar koma í land þeir farþegar sem ferjaðir eru með léttabátum úr skipum sem leggjast við akkeri. Gæsla á því svæði var aukin í sumar frá því sem áður hefur verið og allt skipulag var betra, en þó þarf að gera betur. Í bígerð er að smíða göngustíg úr timbri við hliðina á veginum, sem myndi auka öryggi á svæðinu umtalsvert.

Horfurnar góðar en margt getur breyst

Komum skemmtiferðaskipa til Ísafjarðarbæjar hefur fjölgað ævintýralega síðustu árin. Ef við lítum bara aftur til ársins 2011 þá komu 35 skip hingað það sumar. Árið 2018 voru þau orðin 64 og síðasta sumarið áður en öllu var skellt í lás vegna Covid-19 voru þau orðin 131 talsins. Eftir að aftur losnaði um þær ferðahömlur sem faraldurinn olli hefur þróunin svo bara verið enn hraðari. Nú bendir hins vegar ýmislegt til þess að vöxturinn sé um það bil að ná hámarki og að skipakomum muni ekki fjölga verulega frá því sem nú er, heldur haldast í svipuðu horfi næstu árin. Margt getur þó spilað þar inní, t.d. staðan í heimspólitíkinni og má í því samhengi nefna að stríðið í Úkraínu hefur haft mikil áhrif á ferðir skemmtiferðaskipa um ákveðin hafsvæði.

Það er ekki bara heimspólitíkin sem hefur áhrif á komur skemmtiferðaskipanna því innanlandspólitíkin getur auðvitað gert það líka.  Þetta á til dæmis við um þau skip sem hafa boðið upp á hringsiglingar um Ísland, en all mörg af hinum smærri skipum eru með fasta viðveru við Íslandsstrendur mestallt sumarið, sigla hring eftir hring og heimsækja fjölmargar hafnir landsins. Þau skip sem hafa þennan háttinn á hafa notið ákveðins tollfrelsis, en nú stendur til að afnema það um næstu áramót.  Hætt er við því að útgerðarfélög þessara skipa muni endurskoða stöðu sína ef af þessu verður, en ljóst er að það yrði umtalsvert högg ef slíkar hringsiglingar legðust af. Nú í sumar voru 53 skipakomur til Ísafjarðar í tengslum við hringsiglingar, farþegafjöldinn var tæplega 16 þúsund manns og tekjur hafnarinnar af þessum skipum námu um 75 milljónum króna. Þetta yrði líka umtalsverður tekjumissir fyrir mörg þjónustufyrirtæki í sveitarfélaginu, en langflestir farþeganna í þessum skipum fara í skipulagðar skoðunarferðir og kannanir benda til þess að meðaleyðsla hvers farþega á þessari tegund skipa sé talsvert meiri en farþega stærri skipanna.

Mikill áhugi á Ísafirði

Nú í haust hafa Hafnir Ísafjarðarbæjar átt fundi með útgerðarfélögum margra skemmtiferðaskipa og það er ljóst að áhugi þeirra á Íslandi og Ísafirði er enn mikill.  Mörg þessara fyrirtækja hafa fylgst náið með framkvæmdunum við höfnina okkar og fagna því að nú skuli vera hægt að bjóða farþegunum upp á betri aðstöðu en áður við komuna til bæjarins.  Annars virðast farþegar undantekningalítið vera ánægðir með heimsóknir sínar til Ísafjarðar og á meðan svo er munu skipafélögin halda áfram að bjóða upp á Ísafjarðarbæ sem einn af sínum viðkomustöðum.

Að lokum er rétt að ítreka þakkir til íbúa Ísafjarðarbæjar fyrir þolinmæði og jafnaðargeð á annasömum skipadögum. Ég vona að haustið og veturinn verði okkur öllum farsælt og að með hækkandi sól getum við svo mætt nýju sumri og nýjum skipagestum með brosi á vör.

Hilmar Kristjánsson Lyngmo
Hafnarstjóri í Ísafjarðarbæ

DEILA