Maskína: Miðflokkurinn stærstur í Norðvesturkjördæmi

Bergþór Ólason yrði fyrsti þingmaður kjördæmisins samkvæmt könnun Maskínu að því gefnu að hann bjóði sig fram og verði áfram efsti maður Miðflokksins.

Í nýjustu könnun Maskínu, sem gerð var í september, er Miðflokkurinn með mest fylgi í Norðvesturkjördæmi og mælist flokkurinn með 25% fylgi. Flokkurinn fékk 7,4% atkvæða í síðustu Alþingiskosningum sem voru í september 2021. Hefur flokkurin liðlega þrefaldað fylgi sitt.

Samfylkingin er næststærst samkvæmt þessari könnun og mælist hún með 23,6% fylgi. Samfylkingin fékk 6,9% fylgi fyrir þremur árum og hefur hún líka liðlega þrefaldað fylgi sitt.

Framsóknarflokkurinn fengi 14,4% fylgi samkvæmt könnun Maskínu en fékk 25,8% í síðustu Alþingiskosningum. Sjálfstæðisflokkurinn er aðeins í fjórða sæti og mælist með 13,3% fylgi í könnun Maskínu. Það er um helmingur fylgisins í Alþingiskosningunum síðustu þegar flokkurinn fékk 22,5% atkvæða.

Aðrir flokkar fá mun minna fylgi í könnun Maskínu, Flokkur fólksins 6,8%, Viðreisn 5,7%, Sósíalistaflokkurinn 4,3%, Vinstri græn 3,6% og Píratar 3,3%.

Mest fylgi í Norðvesturkjördæmi

Norðvesturkjördæmi er það kjördæmi þar sem Miðflokknum vegnar best. Sama má segja um Framsóknarflokkinn. Báðir þessir flokkar fá mun meira fylgi í Norðvesturkjördæmi en flokkarnir fá á landsvísu. Miðflokkurinn er með 19% á landsvísu sem er 6% minna en í Norðvesturkjördæmi og Framsókn er með um 6% meira fylgi í kjördæminu en á landsvísu.

Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylking fá í Norðvesturjördæmi svipað fylgi og á landsvísu 13,4% og 25%. Sama má segja um Vinstri græn, þau mælast með 3,6% í kjördæminu en með 3,7% á landsvísu. Sóslíaslistaflokkurinn er með 4,3% í kjördæminu og 4,7% á landsvísu.

Hins vegar eru Flokkur fólksins og Píratar með minna fylgi í Norðvesturkjördæmi en á landsvísu. Píratar mælast með 8,5% fylgi en aðeins 3,3% í Norðvesturkjördæmi. Flokkur fólksins fengi 8,8% fylgi á landinu öllu en 6,8% í kjördæminu.

Ef kjördæmaþingsætunum sex yrði skipt samkvæmt könnuninni fengi Miðflokkurinn tvö þingsæti, svo og Samfylkingin, en Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn eitt þingsæti hvor. Jöfnunarsætið, sem verður sjöunda þingsæti kjördæmisins, er óvíst hvar lendir.

Könnun Maskínu um fylgi flokkanna í september á landsvísu. Tvær síðustu kannanir á undan eru einnig sýndar svo og úrslit síðustu Alþingiskosninga lengst til vinstri.

DEILA