María Rut: styðjum Hvalárvirkjun

María Rut Kristinsdóttir.

María Rut Kristinsdóttir, frambjóðandi og oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi sagði í kynningu á Bæjarins besta í fyrradag aðspurð um afstöðu sína til virkjana á Vestfjörðum, einkum til Hvalárvirkjunar og hugmynda um Vatnsdalsvirkjun að hún væri opin fyrir öllum leiðum sem tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum. 

María Rut var beðin um að skýra afstöðu sína nánar.

„Ég vil tryggja raforkuöryggi til að stuðla að áframhaldandi uppbyggingu innviða, atvinnulífs og fyrir orkuskipti. Hvalárvirkjun er í nýtingaflokki samkvæmt rammaáætlun og við styðjum þau áform. Uppbygging þeirrar virkjunar gerir aðra uppbyggingu auðveldari og hagkvæmir, bæði í orkuflutningi og frekari virkjanir í Ísafjarðardjúpi. Orkubú Vestfjarða hefur komið með sín sjónarmið um Vatnsdalsvirkjun sem ég tel gagnlegt að halda áfram að skoða, til dæmis í samhengi mögulegs þjóðgarðs á svæðinu. Vesturbyggð er með skipulagsvaldið á svæðinu og það ber að virða. „

Styð laxeldið

Í kynningunni sagði María Rut um laxeldið að hún styddi eldið – „en eins og til stóð með lagasetningunni í vor sem ríkisstjórninni tokst ekki að klára þá verða að vera skýr viðurlög við brotum sem hafa umhverfisáhrif.“

Hún var innt eftir því hvaða viðurlög hún vildi sjá.

„Þau viðurlög sem ég tel nauðsynleg eru ýmis sektarákvæði líkt og stóð til í lagafrumvarpinu sem dagaði uppi. Þau lönd sem hafa gefið afslátt af umhverfisreglum hafa á endanum fengið það í bakið. Get nefnt Færeyjar, Chile og Noreg í því samhengi.“

 

DEILA