Íþróttahúsið Torfnesi: ósanngjörn úthlutun tíma

Íþróttahúsið á Torfnesi.

Vigdís Pála Halldórsdóttir, formaður handknattleiksdeildar Harðar á Ísafirði segir að úthlutun tíma í íþróttahúsinu á Torfnesi sé ósanngjörn í garð Harðar. Hún segir að lengi vel hafi erindum Harðar ekki verið svarað og að starfsmaður skóla- og tómstundasviðs sé ekki hlutlaus. Vigdís andmælir því að hafa sýnt af sér ógnandi hegðun heldur hafi hún bara bent á staðreyndir.

Vigdís Pála Halldórsdóttir, formaður handknattleiksdeildar Harðar.

HSV gagnrýnir úthlutunina

Sigurður Jón Hreinsson, formaður HSV segir í bréfi til bæjarstjóra og sviðsstjóra að stjórn HSV hafi ekki samþykkt tímatöfluna né hafi verið í samráði um úthlutun tíma og að engar skýringar hafi fengist á miklum breytingum sem urðu á tímatöflum á milli tímabila, né rökstuðningur fyrir úthlutun.

Úthlutuðum tímum fækki úr 234 í 204 sem skýrist að miklu leyti af því hver tími er lengdur úr 50 mínútum í 60 mínútur. Fækkunin komi misjafnt niður á íþróttagreinum. Handboltinn fer úr 71 tíma á viku í 61. Hjá körfuboltanum fækkar tímum úr 74 í 70, en tímum blaksins fjölgar úr 28 í 33.

Þá verði fækkun tíma hjá handknattleiknum hjá meistaraflokki úr 29 niður í 16, sem sé „ótrúleg breyting og ekki síst í ljósi þess að Hörður er nú með tvö meistaraflokkslið skráð á Íslandsmótinu, þar af annað í næst efstu deild.“

„Þessi mikla breyting á tímafjölda meistaraflokks handboltans hefur ekki fengist rökstudd með neinu móti af nokkrum manni“ segir formaður HSV í bréfinu.

Í niðurlagi bréfsins segir Sigurður: „Það er skýlaus krafa stjórnar HSV að tímatöflur í íþróttahúsunum verði unnar upp á nýtt með sanngjarnari hætti og með samanburði við töflur síðustu ára.  Þá þarf einnig að snúa til baka með lengd æfingatíma og færa þá aftur í 50 mínútur, til að fjölga tímum.“

Í samtali við Bæjarins besta sagði Sigurður að bréfum HSV hafi ekki verið svarað málefnalega né spurningum HSV. Hluti vandans væri að Herði væri úthlutað mörgum tímum milli kl 2 – 4 á daginn til unglingastarfsins en þá eiga iðkendurnir að vera í skólanum. Þessa tíma væru því vandasamt að nýta. Honum virtist sem það væri um 12% fækkun tíma í íþróttahúsinu frá síðasta vetri og að nánast öll fækkunin lenti á kvöldtímum handknattleiksins. Sigurður sagði að upphafið af deilunum væri að finna í tillögunni að tímaskiptingunni sem komið hefði frá starfsmönnum bæjarins. Í meginatriðum hefði tillagan ekki tekið breytingum og gagnrýni hafi ekki verið mætt.

Sigurður Jón Hreinsson formaður HSV

DEILA