Íþróttafélagið Hörður: sakar bæjarskrifstofuna um að vinna gegn félaginu

Bragi Axelsson.

Bragi Axelsson, forsvarsmaður íþróttafélagsins Harðar á Ísafirði segir að gegn ákveðnum aðilum sé alltaf unnið á bæjarskrifstofunum. Hann segir í tölvupósti að úthlutun tíma í íþróttahúsinu fari fram með ómálefnalegum hætti. Krafðist hann þess að bæjarstjóri hefði afskrifti af málinu.

Arn Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri sagðist í svari til Braga ekki átta sig „nákvæmlega hvað þú ert að gefa í skyn með þessum orðum þínum um ákveðna aðila á bæjarskrifstofum. Ég get ekki séð annað en að starfsmenn Ísafjarðarbæjar hafi starfað af fagmennsku og komið með tillögur að tímaröðun sem endurspegla sjónarmið sem flestra.“

Bragi var ekki ánægður með svarið og kallar það kerfissvar. Segir hann að „starfsmaður tengdur félagi sá um úthlutun – sá starfsmaður er fyrrverandi stjórnarmaður og núverandi afleysingarþjálfari í einu félagi.“ og bætir svo við:

„Þú veist alveg hvað ég á við – það er ákveðin óvild tiltekinna starfsmanna í minn garð, Gísla Jóns og fleiri þegar á reynir. Getur látið eins og þú kannist ekki við en við vitum bæði að svo er.“

Loks segir í póstinum frá Braga:

„Þetta mál mun hafa eftirmála fari þetta svona. Það eru kosningar eftir 2 ár og fari svo að íþróttafélag geti ekki haft sína starfsemi hér á svæðinu er það ekki falleg kynning.
Ísafjarðarbær getur ekki farið vel útúr því að eitt félag þurfi að gefa út fréttatilkynningar um að það verði að draga lið úr keppni því sveitarfélagið vilji ekki gera neitt fyrir það.“

Þá segir Bragi Axelsson í öðrum pósti til sviðsstjóra skóla- og íþróttasviðs:

„Persónuleg heift þín og ykkar þarna á skrifstofunni virðist ætla að tryggja það að börn sem vilja stunda handbolta fá ekki að æfa.“

Fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra til skóla-, íþrótta- og tómstundanefndar að starfsfólki skóla- og tómstundasviðs hafi borist um 70 póstar frá stjórnarmanni Harðar síðan um miðjan ágúst 2024 vegna tímaúthlutunar í íþróttahúsum til aðildarfélaga HSV.

starfsmenn upplifa óöryggi og vanlíðan vegna ásakana

Nefndin færði til bókar að fylgt hafi verið við úthlutun tíma í íþróttamannvirkjum Ísafjarðarbæjar úthlutunarreglum Ísafjarðarbæjar sem samþykktar voru 29. febrúar 2024 og bætti við:

„Nefndarmenn eru hugsi yfir framgöngu forsvarsmanna handknattleiksdeildar knattspyrnufélags Harðar gagnvart starfsmönnum skóla- og tómstundasviðs sem hafa upplifa mikið óöryggi og vanlíðan vegna þeirra ásakana sem koma fram í tölvupóstsamskiptum forsvarsmanna Harðar og umræðum á samfélagsmiðlum, sem eiga við engin rök að styðjast.“

DEILA