Hafnastjórn Ísafjarðarhafna hefur borist erindi frá 29 skútueigendur þar sem óskað er eftir að sett verði ný flotbryggja í Sundahöfn fyrir næsta sumar í stað þeirrar sem var fjarlægð fyrir nokkrum árum. Þá þurfi að
endurnýja stauraflotbryggjuna í Sundahöfn og huga að framtíðarskipulagi skútuaðstöðu við Olíumúlann.
Í erindinu segir að í Ísafjarðarhöfn séu fjórar flotbryggjur sem hægt er að liggja við, þar af tvær mjög litlar. Sjaldnast eru laus viðlegurými á þessum bryggjum yfir sumarið og fá á veturnar. Stærsta bryggjan, staurabryggjan í Sundahöfn, sé í lélegu ástandi og þarfnist endurnýjunnar.
Í Sundahöfn var áður flotbryggja með básum í eigu einkaaðila. Sú bryggja eyðilagðist fyrir nokkrum árum og er ekki útlit fyrir að hún verði endurnýjuð af eigendum bryggjunnar. Skútuflotbryggjan við Olíumúlann er fullnýtt allt árið og í sumar hafa auk þess yfirleitt verið sjö skútur í legufærum á Pollinum auk margra aðkomuskúta sem hafa ýmist verið við hafnarkant, í legufærum eða akkeri.
Ástandið sé þannig að það er erfitt að fá viðlegupláss í höfninni. Skútueigendur hafa flúið út í legufæri með tilheyrandi óhagræði fyrir þá og óþarfi er að fjölyrða um það tjón sem varð í áhlaupinu 5. september.
Hafnastjóri Hilmar Lyngmo tekur undir það að vöntun er á viðlegurými fyrir báta í höfnum á Ísafirði, Suðureyri og Þingeyri.
Hafnarstjórn fól hafnarstjóra að vinna tillögur að endurbótum á aðstöðu fyrir smábáta og skútur á bátahöfn við gamla olíumúlann og leggja fram á næsta fundi stjórnar.