Birt hefur verið minnisblað Verkís um hönnun innviða vegna móttöku skemmtiferðaksipa á Ísafirði.
Um er að ræða hönnun og mat á kostnaði fyrir aðkomusvæði farþega skemmtiferðaskipa, rútubílastæði og gönguleiðir að Neðstakaupstað og Sundstræti.
Gert er ráð fyrir svæði sem er sérstaklega ætlað fyrir móttöku og gönguleiðir farþega af skemmtiferðaskipum. Svæðið liggur þvert yfir tangann milli móttökuhúss við Sundabakka og Neðstakaupstaðar. Á milli Æðartanga 3 og 5 skal byggt upp torg og þaðan skulu gönguleiðir liggja;
annars vegar að Neðstakaupstað og hins vegar að aðstöðu ferðabáta í Sundahöfn. Þessum gönguleiðum er ætlað að beina farþegum um örugga leið að Neðstakaupstað og þaðan í átt að miðbæ um Suðurgötu eða að ferðaþjónustu í Sundahöfn. Næst svæðunum er gert ráð fyrir bíla- og rútustæðum fyrir móttöku farþega, sbr. kafla um lóðir fyrir athafnastarfsemi.
Á torginu er heimilt að setja upp salerni, sölubúðir, dvalarsvæði og afþreyingu fyrir gesti og starfsmenn.
Sérstök áhersla er lögð á þarfir farþega og skýrar sjónlínur að næsta áfangastað farþega, sem og öryggi gangandi vegfarenda við rútustæði.
Heildarkostnaður er áætlaður verða 470 m.kr. Þar af við torgið og gönguleiðir frá því 326 m.kr. Kostnaður við aðrar gönguleiðir og svæði 144 m.kr.
Mestur er kostnaðurinn talinn vera við torgið og göngusvæði við Sundabakka 194 m.kr.
Gönguleið meðfram Sundahöfn að Mávagarði er talin kosta 90 m.kr. Gönguleið frá torgi að Ásgeirsgötu kostar 70 m.kr. og gönguleið frá torgi að Neðstakaupstað 62 m.kr.
Langstærsti kostnaðurinn við torgið eru 2.900 fermetrar af hellum sem kota 72,5 m.kr. og 500 lengdarmetrar af beðkanti sem kosta 35 m.kr.
Skipulags- og mannvirkjanefnd fól sviðsstjóra að uppfæra áætlun miðað við umræður á fundinum og vísaði henni uppfærðri til samþykktar í bæjarstjórn.