Ísafjarðarbær: 83,4% hækkun fasteignamats á fjórum árum

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Heildarfasteignamat í Ísafjarðarbæ árið 2025 er 86.3 milljarðar króna, en var kr. 76.6 milljarðar króna árið 2024. Hækkunin milli ára er 12,7%. Fasteignamatið hefur hækkað frá árinu 2021 frá 12%-20% milli ára. Frá árinu 2021 hefur fasteignamat hækkað um 83,4%.

Fram kemur í minnisblaði fjármálastjóra að í fyrstu drögum að áætlun álagningar 2025 er gert ráð fyrir lækkun fasteignaskatts íbúðarhúnæðis um 0,02%, vatnsgjöld hækki um 4,6%, holræsagjöld eru óbreytt og sorpgjöld hækka um 10%.

Miðað við þessar forsendur hækka tekjur af fasteigangjöldum (utan sorpgjalda) um 9,5% sem skilar auknum tekjum upp á 64,5 m.kr. á árinu 2025 og yrðu þær þá 909 m.kr.

Fasteignaskatturinn einn og sér verðu 619 m.kr. og hækkar um 54 m.kr. eða um 84% af heildarhækkuninni af fasteignagjöldunum.

Bæjarráðið frestaði á mánudaginn töku ákvörðunar í málinu og fól bæjarstjóra að leggja fram frekari gögn.

DEILA