Ísafjarðarbær: 3 m.kr. tekjuauki frá Jöfnunarsjóði vegna skólamáltíða

Grunnskólinn á Ísafirði.

Ísafjarðarbær fær á þessu ári 16,5 m.kr. framlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða sem tekin voru upp í haust í framhaldi af síðustu kjarasamningum. Í Ísafjarðarbæ eru 4 grunnskólar með 482 nemendum, þar af 385 í Grunnskóla Ísafjarðar.

Í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins var gert ráð fyrir 13,5 m.kr. tekjum vegna skólamáltíðanna sem falla þá niður við ákvörðunina um að þær verði gjaldfrjálsar.

Niðurstaðan er að fjárhagsstaða Ísafjarðarbæjar batnar um 3 m.kr. þar sem framlögin frá Jöfnunarsjóði eru hærri en áætlaðar greiðslur nemenda vegna skólamáltíða.

Þá fær Ísafjarðarbær 26 m.kr. til viðbótar frá Jöfnunarsjó’i sveitarfélaga, annars vegar 12 m.kr. framlag vegna samþættingar þjónustu og 14 m.kr. í viðbótartekjujöfnunarframlag.

Samtals batnar fjárhagsstaða Ísafjarðarbæjar um 29 m.kr. vegna framlaga frá Jöfnunarsjóðnum.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar afgreiddi í gær viðauka nr 12 við fjárhagsáætlun um þessa breytingu og fer hann til samþykktar á næsta bæjarstjórnarfund.

DEILA