Í góðu samfélagi þarf enginn að vera eyland

Hér fylgir ávarp sem Ólafur Guðsteinn Kristjánsson flutti í bleika boðinu Sigurvonar 24. október síðastliðin þar sem saman var kominn umtalsverður fjöldi fólks. Stjórn Sigurvonar vill með birtingu þess hvetja alla þá sem glíma við krabbamein og á það jafnt við þá sem greinast með krabbamein sem aðstandendur til að kynna sér þann stuðning sem Sigurvon býður upp á. Enginn þarf að vera eyland.

Hér er Sigurvon á Facebook og hér er heimasíða Sigurvonar.  Og hér er svo frétt á heimasíðu félagsins.

Í einhverju bríaríi ákvað ég að troða hér upp og flytja ykkur, góða fólk, ávarp. Eða ég lagði það öllu heldur til við stjórn Sigurvonar sem taldi að ég gæti átt erindi við ykkur. Ég tel og að sú kunni að vera raunin þó ekki nema sé fyrir þá líffræðilegu staðreynd að ég er karlpungur. Það er nefnilega fremur sjaldgæft að karlpungar tjái sig um það málefni sem spyrt er við þessa kveldstund. Það er svo vonandi að ég verði félaginu, fjölskyldu minni og sjálfum mér ekki alltof mikið til skammar með framgöngu minni.

Síðan þetta var ákveðið hefi ég brotið heilann fram og til baka um hvað í ósköpunum ég ætti að gaspra. Auðvitað veit ég til hvers er ætlast af mér. Mér ber að segja ykkur frá því hvernig vágesturinn krabbamein hefir herjað á mig og mína sem er auðvitað eitthvað sem við flest hér getum tengt við.

Hvað um það.

Ég verð að gera þá játningu að undanfarið hefi ég verið plagaður óttalegu andleysi og óttast að svo kunni að fara að ég standi mig ekki í stykkinu, að ég muni bjóða upp á innihaldslaust, sundurlaust og samhengislaust þvaður. Ég hafði satt best að segja af þessu allnokkrar áhyggjur. Ég hugsaði með mér: Auðnast mér að vera mátulega dramatískur? Verð ég temmilega fyndinn – er viðeigandi að gera skallagrín? Næ ég að hreyfa við fólki? Á ég að setja mér það markmið að ekki verði þurr hvarmur í húsinu, að harðgerðustu togarajaxlar brynni músum í grátkór sem sóma myndi sér ágætlega í grískum harmleik? Eða er ráðlegt að erindið verði í það minnsta smávægilega fræðandi? Þarf ekki að opna á umræðu? Brjóta niður múra karlhormónanna? Við vitum jú, að karlmenn eru ólíklegri til að tjá sig um veikindi og þess háttar. Er vera mín og míns rytjulega skeggs nóg til að hrikti í þeim stoðum? Já, ég hefi margt pælt. EN svo fattaði ég að þetta gildir einu. Ég hefi frípassa. Það má einu skipta hversu glataður ég verð og óviðeigandi, hve lítt áhugaverður og hve illa mér tekst að fanga athygli ykkar með frambærilegri frásagnarlist, góðri framsögn og karlmannlegum ákveðnum rómi þess sem telur sig eiga erindi við samfélag manna, kvenna og kvára.

Neibb! Það meikar ekki diff.

Dóttir mín er með krabbamein. Dóttir mín er með hvítblæði, svokallað ALL bráðahvítblæði. Hún greindist með það 1. október 2022, þá nýskriðin yfir tveggja ára að aldurinn.

Já, og þar af leiðandi á ég auðvitað samúð ykkar allra vísa. Það getur enginn verið svo harðbrjósta að hafa horn í síðu manns sem á ungt afkvæmi, örverpi sem glímir við þennan illvíga andskota sem fyrirfinnst víst í mörgum myndum og hefir margvíslega undirflokka, misvinsæla ef svo má að orði komast, þótt allir séu þeir því marki brenndir að vilja ólmir stuðla að ótímabærum dauða þess sem greinist með þá óværu, sem hefir fengið yfirhugtakið krabbamein (svona til einföldunar). Og þótt við þurfum víst öll deyja úr einhverju eins og ömmu minni sálugu var tamt að segja áður en hún sálaðist, södd lífdaga, má víst hugsa sér eitthvað skemmtilegra til að lúta í grasi fyrir en krabbamein. Já, og í því samhengi má sannlega velja sér meðfærilegri og læknanlegri veikindi en krabbamein, þótt valið í þeim efnum sé auðvitað fremur takmarkað.

En bíðum nú við! Það er ágætt að halda því til haga að það að greinast með krabbamein árið 2024 er ekki sá stráfellandi dauðadómur sem það eitt sinn var. Nei, nú er öldin önnur og nú til dags, án þess að ég sé eitthvað að þreyta ykkur á tölfræði, eru batahorfur barasta almennt séð ekki svo slæmar, þótt það sé auðvitað móður minni sálugri lítil huggun þar sem hún hvílir núna í kirkjugarði fyrir sunnan eftir að hafa gert jafntefli við krabbamein. Þegar dauðann ber að garði fyrir sakir krabbameins hljóta bæði einstaklingurinn og krabbinn að hverfa og er því um jafntefli að ræða. Reyndar er þessi nálgun fengin frá kanadíska grínistanum Norm Macdonald sem gerði einmitt jafntefli við krabbann á því herrans ári 2021. En það er nú önnur saga.

Það er vissulega dálítið „heví“ að greinast með krabbamein eða þegar dóttir manns greinst. Það er kannski svona eins og lag með dauðarokkssveitinni Sororicide.

Fólk bregst samt auðvitað við á mismunandi hátt. Fullyrða má engu að síður að slík greining sé ætíð sjokk og tilfinningin að standa við dauðans dyr hljóti að vera æpandi, gólandi og glymjandi í hugskotum manns sem argasti pönksöngur ellegar söngur þungarokkssöngvara á borð við Rob Halford í Judas Priest. Eða kannski heyrum við bara „Allt eins og blómstið eina“ óma í hugskotum okkar. 

Auðvitað eru aðstæður mismunandi og misdramatískar. Í okkar tilfelli, í veikindum dótturinnar, hefði alveg mátt slaka á í dramatíkinni. Og án þess að fara náið út í þá sálma var ýmislegt á stúlkukornið og fjölskyldu hennar lagt. Góðu heilli er hnátan ung að árum og mun ekki átta sig á því fyrr en síðar meir hve harkalega var trampað á lífsþræði hennar, hve nálægt því hann var að fara í sundur. Hársbreidd. Auk þess er gott hve ung hún er, því ungir kroppar jafna sig hraðar og eru því góðar líkur á því að lífsgæði hennar framtíðarsjálfs verði á við annarra. Hugsanlega verður hún stubbur þar sem krabbameinslyfin, nokkuð mikið magn, sem hún hefir þurft að innbyrða kunna að hefta vöxt hennar. En hey! Betra að vera lifandi stubbur en dauður.

Og nú, góðu heilli, sér fyrir endann á þessu ævintýri og við bindum  vonir við að vágesturinn kveðji okkur endanlega nú í nóvember þegar áformað er að viðhaldsmeðferð rýjunnar okkar ljúki.

En hún er víst enn í þessari dauðans glímu, ónæmisbæld, sístunginn í lyfjabrunninn svo taka megi blóðprufur, með óttaslegna foreldra yfir sér sem óttast bakslög með tilheyrandi spítalavist og veikindum. Vegna krabbameinslyfjanna er hún oftlega útsett fyrir allra handa smitsjúkdómum. Þessi elska. En hún er nokkuð séð og kann að nýta sér þá staðreynd að hún sé veik. Ef það er eitthvað sem henni er bannað, sé hún skömmuð, á hún það til að vera svo óforskömmuð að segja miskunnarlaust: En ég er með krabbamein.

Slíkt er í sjálfu sér ekki til eftirbreytni þótt vissulega megi sjá í gegnum fingur sér með slíkt hátterni sakir þess að hún er ekki miðaldara karlfauskur eins og sá sem hér mælir. Svo er í orðunum fólgin viss áminning:

Lífið er stutt og dauðinn er ólæknanlegur. Það sem maður taldi bráðnauðsynlegt er það kannski ekki. Að standa frammi fyrir víðlíka þraut breytir lífssýn manns, eða ætti að gera það. Vandamál, áföll, hörmungar eru óhjákvæmilegur fylgifiskur tilverunnar. Við lendum öll í einhverju. Alltént þekki ég ekki kjaft sem hefir verið svo heppinn að lenda aldrei í neinu miður góðu. Ég veit ekki einu sinni hvort það sé beint æskilegt. Og þessi orð: „En ég er með krabbamein“, ættu að geta minnt á hverfulleika lífsins og að allir, líka litlar sætar stelpur, geta fengið krabbamein, geta dáið. Við getum ekki pakkað lífinu í bómull, lífið mun allajafna finna leið til að kasta einhverju í okkur sem varpar okkur í einhvers konar kviksyndi sem erfitt kann að vera að toga sig upp úr á hárinu líkt og Müchhausen barón gerði forðum.

Og þá er gott að vita til þess að við erum ekki eyland og það jafnvel þótt við fjölskyldan flyttum hingað árið 2021 og hefðum lítið sem ekkert bakland. Konan mín er nefnilega helvítis útlendingur og ég eiginlega líka, fæddur í Selfosshreppi. Já, við vorum ný hér, með lítið sem ekkert tengslanet framandi verur á fjarlægri strönd. Og svo vildi lífið endilega leggja á okkur þessar Jobslegu raunir. Og kom einnig fleira til. Lífið vildi sannlega fokka í okkur. Og oft vorum við ekki frá því að það myndi hreinlega ríða okkur á slig. En viti menn, konur og kvár! Við komumst að því að við búum í samfélagi og það bara hreint ekki svo slæmu, við fengum allslags óumbeðna hjálp. Við vorum nefnilega oftlega ekki í neinu ástandi til að leiða hugann að sumum málum, fallegt fólk tók börnin okkar að sér á meðan unnið var að því í Svíþjóð að koma í veg fyrir að Hilda kveddi jarðvistina og skildi eftir sig langvarandi skeifu og sorgarhrukkur á andliti fjölskyldunnar, allt starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar, félagsþjónustunnar, sjúkratrygginga, fólk hér í Ísafjarðarbæ, Sigurvon reyndist haukur í horni. Enginn var samt með nefið í okkar koppi, og það kunnum við að meta. Hluttekningin var annars eðlis og raunar var að því ýjað að við værum að gera samfélagi, sem oft kann illa að sýna meðlíðun með orðum, greiða með því að þiggja fjárstyrk sem fólk vissi auðvitað að myndi ekki vinna meinbug á hræðilegum aðstæðum en gæti hjálpað til, varpað frá öðrum áhyggjum…  Já, góð samfélög geta gert vonda hluti bærilegri, þolanlegri.

Að ganga í gegnum viðlíka svipugöng ætti sannlega að geta stuðlað að breyttri lífssýn, maður ætti að læra að hugsa suma hluti upp á nýtt. Og ef við hefðum ekki smá dramatík í lífinu má og ætla að samræður okkar yrðu fremur fábreytilegar, þær myndu líkast til bara snúast um veðrið. Ekki það að maður hefði ekki viljað vera undanþegin þessari lífsreynslu, að ég tali nú ekki um dóttur mína. En alltént stend ég hér núna. Karlfauskur sem talar um eitthvað sem skiptir máli og veit að þið og samfélagið munuð sjá í gegnum fingur ykkar með vankanta þessa ávarps, því eftir allt er dóttir mín með krabbamein og þið eruð gott og fallegt fólk sem takið tillit til þess. Þið eruð samfélag sem jafnvel hlustið á karlfauska og eruð tilbúin að leggja liðsinni. Það er fegurra en nokkur jökull sem verða má eitt með.

DEILA