Hvalárvirkjun: skrefi nær

Yfirlitsmynd af virkjunarsvæði. Glæra frá kynningarfundinum.

Áform Vesturverk ehf um að reisa Hvalárvirkjun á næstu árum fengu í gær byr í seglin með úrskurði sérstöku Óbyggðanefndarinnar sem kveðinn var upp í gær.

Óbyggðanefnd hafði í fyrri úrskurði árið 2019 komist að þeirri niðurstöðu að Drangajökull væri þjóðlenda, en ríkið endurskoðaði kröfur sínar að þeim úrskurði uppkveðnum og gerði nýja kröfu árið 2022. Var þess krafist að allmikið land sunnan og austan Drangajökuls væri einnig þjóðlenda og þar með ekki í eigu eigenda jarðanna sem eru á svæðinu. Sneri krafan að fimm jörðum á svæðinu.

Skipuð var sérstök Óbyggðanefnd til þess að úrskurða um nýju kröfuna og kom niðurstaða hennar í gær. Úrskurðurinn er að ekki séu þjóðlendur á svæðinu sem ríkið gerði kröfu um nú.

Þetta þýðir að landeigendur teljast áfram vera eigendur landsins. Það hefur þýðingu fyrr Hvalárvirkjun þar sem Vesturverk ehf hafði gert samninga við eigendur Ófeigsfjarðar og Engjaness um afnot af vatnsréttindum í landi þeirra til virkjunarinnar. Málatilbúnaðurinn fyrir Óbyggðanefnd tafði framgang virkjunaráforma en nú er sú fyrirstaða úr sögunni. Þó ber þess að geta að ríkið gæti farin með málið fyrir almenna dómstóla en ekkert bendir til þes að það muni gera það.

Nú er aðeins beðið niðurstöðu Hæstaréttar um áfrýjunarbeiðni nokkurra landeigenda að jörðinni Drangavík. Þeir vilja skjóta dómi Landsréttar til Hæstaréttar í máli sem þeir höfðuðu og töpuðu bæði í héraði og í Landsrétti. Þar var þess krafist að að jörðin Drangar væri mun stærri en viðurkennt er og ætti í raun töluvert af jörðunum Engjanes og Ófeigsfirði og þar með vatnsréttindin.

Hæstiréttur átti lögum samkvæmt að vera búinn að taka afstöðu til áfrýjunarbeiðninnar fyrir 9. september sl. en hefur erindið enn til umfjöllunar. Verði beiðninni um áfrýjun hafnað er lokið þeim málaferlum og ekkert lengur í veginum fyrir því að hefja af fullum krafti undirbúning að virkjunarframkvæmdum.

-k

DEILA