Fuglainflúensa í hröfnum og öðrum villtum fuglum

Bráðabirgðaniðurstöður úr sýnum úr villtum fuglum gefa til kynna sýkingu með fuglainflúensuveirum. Samhliða hafa í auknum mæli borist tilkynningar til Matvælastofnunar um veika eða dauða villta fugla.

Almenningi er ráðlagt að handsama ekki villtan fugl sem er hættur að forða sér í burtu, heldur skal tilkynna slíkan fund til Matvælastofnunar og fylgjast með fuglinum. Allir sem halda alifugla og aðra villta fugla skulu viðhafa ýtrustu smitvarnir til að koma í veg fyrir smit frá villtum fuglum í eigin fugla.

Sýni hafa verið tekin úr tveimur hröfnum, sem fundust annars vegar á Laugarvatni og hins vegar í Öræfum. Þá hefur verið tekið sýni úr hettumáfum á Húsavík. Annar hrafnanna fannst veikur og drapst svo, hinn hrafninn virtist vera heilbrigður en gat ekki flogið. Hann var tekin til aðhlynningar en um síðustu helgi, tveimur vikum eftir að hann fannst, var hann aflífaður þar sem ástandi hans hrakaði mikið.

Hettumáfarnir fundust dauðir á Húsavík. Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum greindi fuglainflúensuveirur í þessum sýnum.

Almenningi er ráðlagt að koma ekki mjög nálægt eða handleika villtan fugl sem virðist ekki geta bjargað sér, nema með góðum sóttvörnum svo sem með því að nota einnota hanska og veiruhelda grímu. Það á líka við um fugl sem er einungis með væg einkenni eða virkar jafnvel heilbrigður að öðru leyti.

Matvælastofnun mun upplýsa um leið og staðfesting liggur fyrir um gerð veiranna sem hafa fundist nú í haust. Nánari greining á þeim getur síðan gefið vísbendingu um uppruna veiranna.

Matvælastofnun ítrekar beiðni til almennings um að tilkynna til stofnunarinnar um fund á veikum eða dauðum villtum fuglum. 

DEILA