Fjórðungsþing: vilja Álftafjarðargöng strax

Grjóthrun á Súðavíkurhlíð. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur lagt fram tillögu um Álftafjarðargöng sem verður tekin fyrir á Fjórðungsþingi Vestfirðinga seinna í október. Þingið verður haldið á Laugarhóli í Bjarnarfirði agana 18. og 19. október n.k.

Í tillögunni segir að brýnt sé að hraða framkvæmdum vegna Álftafjarðarganga milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar með vísan til umferðaröryggis og lagt er til að hafist verði handa við undirbúning strax vorið 2025. Þannig megi flýta framkvæmdum sem gætu hafist án tafar þegar unnt er að ráðast í gerð jarðganga.

Þá segir að Álftafjarðargöng séu sem stendur fyrsti kostur í jarðgangagerð á Vestfjörðum samkvæmt drögum að samgönguáætlun (nr. 5 af þeim 10 kostum sem þar er að finna) sem liggur í meðförum
alþingis og því brýnt að leggja áherslu á þann kost óháð því að þörf er á fara í fleiri jarðgangakosti í fjórðungnum.

Í greinargerð sem fylgir með tillögunni segir að ósamstaða innan Vestfjarða og ákvarðanir á
Alþingi hafi ýtt Álftafjarðargöngum aftar í forgangsröðun og tafið fyrir úrbótum á þessum hættulega
vegarkafla sem er farartálmi allan ársins hring.

„Sú stefna hefur verið tekin af umhverfis- og samgöngunefnd alþingis að setja umferðaröryggi framar þegar kemur að forgangsröðun jarðganga og leysa þannig af hólmi hættulega vegi sem örðugt er eða ómögulegt að leysa með öðrum kosti. Þeir þættir varða beint Súðavíkur- og Kirkjubólshlíð þegar kemur að umferðaröryggi. Því er mikilvægt að 69. fjórðungsþing Vestfirðinga sameinist um ályktun sem varðar þessar löngu brýnu úrbætur.“

einn hættulegasti vegarkafli landsins

Ennfremur segir í greinargerðinni: „Um er að ræða jarðgangakost sem hefur það að markmiði að leysa af hólmi láglendisveg sem metinn hefur verið einn sá hættulegasti á landinu með fyrirséðum
samgöngutruflunum ár hvert vegna grjóthruns og snjóflóða. Vetur hvern má gera ráð fyrir yfir 20 lokunum vegna snjóflóða og snjóflóðahættu og hafa slíkar lokanir jafnvel orðið hátt á 5. tug á ári. Undanfarnir vetur hafa verið mildir hvað varðar snjóþunga, en veturinn 2020 voru um 40 lokanir á Súðavíkurhlíð fyrstu 3 mánuði ársins á 90 dögum. Þá er ótalin sú truflun á daglegu lífi þeirra sem nota þurfa veginn, af sms sendingum Vegagarðarinnar þar sem gert er ráð fyrir hættu á snjóflóðum og vegna hugsanlegra lokana á veginum.“

DEILA