Fjórðungsþing: tvær tillögur um Álftafjarðargöng

Tvær tillögur um Álftafjarðargöng liggja fyrir komandi Fjórðungsþing Vestfirðinga sem verður haldið um næstu helgi.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps leggur fram aðra tillöguna og þar segir að brýnt sé hraða framkvæmdum vegna Álftafjarðarganga milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar með vísan til umferðaröryggis og lagt er til að hafist verði handa við undirbúning strax vorið 2025. 

Hina tillöguna flytur Strandabyggð. Þar er kveðið ákveðið að orði og lagt til að Fjórðungsþingið álykti að Álftafjarðargöng skuli vera næsta framkvæmd í gangamálum á Vestfjörðum. „Það liggur fyrir að Álftafjarðargöng eru fyrsti kostur í jarðgangagerð á Vestfjörðum samkvæmt drögum að samgönguáætlun og því mikilvægt að halda því til streitu gagnvart stjórnvöldum að farið verði í þetta mikilvæga verkefni, óháð öðrum samgönguverkefnum á Vestfjörðum.“

Í greinargerð sem fylgir með tillögu Strandabyggðar segir eftirfarandi:

„Göng úr Skutulsfirði í Álftafjörð, leysa af hólmi stórhættulegan veg um Súðavíkurhlíð, sem verið hefur farartálmi undanfarin ár og áratugi. Göngin hafa verið á áætlun í áratugi og ítrekað verði rædd í tengslum við þá augljósu slysahættu sem skapast þarna reglulega. Vegurinn um Súðavíkurhlíð er mikilvæg lífæð atvinnulífsins á norðanverðum Vestfjörðum og hefur mikilvægi vegarins stóraukist á undanförnum árum í kjölfar uppbyggingar fiskeldis á svæðinu.
Greiðar samgöngur á norðanverðum Vestfjörðum hafa einnig veruleg áhrif á atvinnulíf og mannlíf á Ströndum, þar sem vegur um Steingrímsfjarðarheiði og jafnvel Þröskulda lokast gjarnan, ef Súðavíkurhlíð er lokuð.
Fjórðungsþing þarf að skera í geng með forgangsröðun ganga á Vestfjörðum, til að koma í veg fyrir enn frekari tafir á framkvæmdum í fjórðungnum. Það gengur ekki lengur að Fjórðungsþing álykti ekki með skýrum hætti um þessa forgangsröðun.“

DEILA