Fjórðungsþing: Ekki ályktað um Álftafjarðargöng

Frá Fjórðungsþinginu.

Ekki varð ályktað sérstaklega um Álftafjarðargöng á Fjórðungaþingi Vestfirðinga um nýliðna helgi en fyrir þinginu voru lagðar tvær ályktanir þar um, önnur frá sveitarstjórn Súðavíkurhrepps og hin frá Strandabyggð. Í tillögunum var sagt að brýt væri að ráðast í göngin sem fyrst.

Þess í stað var gerð ályktun um Vestfjarðalínu. Þar eru stjórnvöld hvött til að leita nýrra leiða við fjármögnun á uppbyggingu innviða á Vestfjörðum. Litið verði á uppbyggingu jarðganga og annarra samgönguinnviða á Vestfjörðum sem sérstakt viðfangsefni samgöngumála í landinu.

„Fjórðungsþing telur mikilvægt að stjórnvöld gangi hér til samstarfs við Innviðafélag Vestfjarða, sveitarfélög, Vestfjarðastofu og aðra hlutaðeigandi aðila við leit að fjármagni til að hrinda í framkvæmd samgönguverkefninu Vestfjarðalínu. Vestfjarðalína verði sérstakur samgöngusáttmáli fyrir Vestfirði sem tryggir öruggan láglendisveg árið um kring og tengir saman mismunandi svæði Vestfjarða og landshlutann saman í eina heild og með öfluga tengingu við höfuðborgarsvæðið.“

Þá ítrekaði Fjórðungsþing ályktun frá 68. Fjórðungsþingi um að haldið verði þing um jarðgöng og fjármögnun stórframkvæmda þar sem forsendur uppröðunar jarðgangakosta og leiðir til fjármögnunar stórframkvæmda í vegagerð verði ræddar og óskað var eftir aðkomu Innviðafélagsins að þeirri vinnu.

DEILA