Ferðamálaráðherra styrkir Vestfjarðastofu um 20 milljónir

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra fyrir hönd Menningar- og viðskiptaráðuneytis hefur undirritað samning við Vestfjarðastofu um þróun vetrarferðaþjónustu á Vestfjörðum. Þetta kemur fram í frétt frá Vestfjarðastofu.

Um er að ræða 20 milljóna króna stuðning til tveggja ára við verkefni sem miðar að því að lengja ferðamannatímabilið á svæðinu.

Vestfjarðastofa hefur átt í löngu og uppbyggilegu samtali við Menningar- og viðskiptaráðuneyti vegna samningsins. Jafnari dreifing ferðamanna yfir árið og um landið er einn liður í ferðamálastefnu til ársins 2030.

Verkáætlun gerir ráð fyrir þriggja ára verkefni þar sem fyrsta ári verður varið til þróunarvinnu á vetrarferðum, á meðan næstu tvö ár munu beinast að markaðssetningu.

Með verkefninu er stefnt að því að auka ferðamannastrauminn yfir vetrartímann og draga úr árstíðasveiflum í ferðaþjónustu. Vestfirðir bjóða upp á fjölbreytta möguleika fyrir ferðamenn, allt frá einstökum náttúruperlum til upplifana eins og norðurljósaskoðun og vetrarævintýra.

Þrátt fyrir að þróunarvinnan sé rétt að hefjast, er byggt á mikilli vinnu þeirra sem stundað hafa heilsársferðaþjónustu á svæðinu til þessa og augljóst er að svæðið hefur margt fram að færa fyrir ferðamenn sem vilja njóta þess besta sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða á vetrum.

DEILA