Farsældarráð í hverjum landshluta

Mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði í dag samninga við sjö landshlutasamtök sveitarfélaga um ráðningu verkefnisstjóra sem leiða mun undirbúning að stofnun svæðisbundins farsældarráðs í hverjum landshluta fyrir sig.

Með samningunum hafa öll sveitarfélög landsins skuldbundið sig til þess að hefja vinnu við að hrinda 5. grein laga um þjónustu í þágu farsældar barna í framkvæmd.

Markmiðið er að börn og foreldrar geti fengið aðgang að samþættri þjónustu við hæfi, án hindrana.

Samningurinn er byggður á niðurstöðum starfshóps mennta- og barnamálaráðuneytisins um samhæfða svæðaskipan í málefnum barna. Að mati starfshópsins voru mikil tækifæri fólgin í því að starfrækja farsældarráðin eftir gildandi landshlutaskiptingu sveitarfélaga enda þau vön að vinna á þeim grunni. Það er því einkar ánægjulegt að sveitarstjórnarfólk landsins hafi tekið undir þessa megintillögu hópsins.

Verkefnisstjórinn mun vinna í nánu samstarfi við forsvarsmenn innleiðingar farsældarþjónustu í sveitarfélögum landshlutans og leiða saman það fagfólk sem vinnur að málefnum barna í því skyni að undirbúa svæðisbundið farsældarráð. Samningurinn er gerður til tveggja ára.

DEILA