Ekkert auðlindagjald af nýtingu á þjóðlendu

Fram kemur á vef ríkisútvarpsins fyrir skömmu að í drögum að greinargerð Vatnajökulsþjóðgarðs um stöðu og þróun íshellaferða og jöklagangna selji tugir fyrirtækja ferðir á jökullinn eins og íshellaferðir og jöklagöngur samkvæmt samningi við þjóðgarðinn.

Þá segir í fréttinni:

„Samtals fóru tæplega 287 þúsund manns í seldar ferðir á Vatnajökul, þar með talið í íshella, frá september í fyrra til ágúst síðast liðins. Þar af fóru 75 þúsund manns í ferðirnar frá maí til ágúst að því er fram kemur í greinargerð Vatnajökulsþjóðgarðs. Íshellaferðir eru langvinsælastar. Af 287 þúsund þeirra sem borguðu fyrir ferð keyptu 205 þúsund manns íshellaferð. Vatnajökulsþjóðgarður áætlar að hver gestur greiði 23 þúsund krónur fyrir ferðina eða samtals 6,6 milljarða króna.“

Jöklar eru þjóðlenda

Óbyggðanefnd komst að þeirri niðurstöðu fyrir tæpum 10 árum að Vatnajökull væri þjóðlenda. Það má segja það sama um aðra jökla á landinu eins og til dæmis Drangajökul. Samkvæmt lögum frá 1998 um þjóðlendur er íslenska ríkið eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti.

Það er því ótvírætt að aegja að íshellaferðir er nýting á þjóðlendu sem íslenska ríkið er eigandi að. Annað nafn á þjóðlendu er sameign þjóðarinnar, en það er einkum notað yfir fiskistofna og sjávarnytjar eins og til laxeldis. Á grundvelli þess að einkaaðilar nýta sameign þjóðarinnar er það talið sanngjarnt að greitt sé fyrir afnotin, auðlindagjald.

Það á til dæmis við um sjókvíaeldið. Sérstök lög voru sett árið 2019 um fiskeldisgjald. PGjaldtakan var röktudd í frumvarpinu sem lagt var fyrir Alþingi þannig: „Tilgangur þessa frumvarps er að tryggja ríkissjóði beint endurgjald vegna nýtingar hafsvæða í íslenskri lögsögu sem geti jafnframt staðið móti kostnaði ríkisins við stjórnsýslu.“ og  „Gjald samkvæmt frumvarpinu grundvallast á þeirri aðstöðu að handhafar rekstrarleyfa til sjókvíaeldis njóta takmarkaðra réttinda til hagnýtingar auðlinda. Það gefur færi til starfsemi sem hefur forsendur til að skila betri afkomu en í öðrum greinum íslensks atvinnulífs.“

Íshellaferðir og jöklaganga er sannarlega sameign þjóðarinnar. Þessi starfsemi er háð leyfum frá ríkinu og án nokkurs vafa takmörkuð auðlind.

tæpir sjö milljarðar króna

Frétt RUV sýnir að um er að ræða eftirsóttar ferðir og greiddar eru háar fjárhæðir fyrir ferðirnar. En það er ekkert auðlindagjald sem kalla mætti t.d. íshellagjald. Tekjurnar eru góðar , tæpir sjö milljarðar króna og hver ferðamaður greiðir um 23 þúsund krónur.

Það eina sem stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur ákveðið er að innheimta þjónustugjöld af samningshöfum til að standa undir mögulegum kostnaði við samstarfshóp rekstraraðila og AIMG (Félag Fjallaleiðsögumanna á Íslandi) sem framkvæmi daglegt stöðumat á öryggi ísmyndana. Annað er það nú ekki.

284 m.kr. skattaeftirgjöf

Ef þetta væri laxeldi en ekki íshellaskoðun þá væri innheimt 4,3% af tekjum. Af 6,6 milljörðum króna hefði gjaldið verið 284 m.kr.

Af hverju er þessi hagnýting einkaaðila á þjóðlendu ókeypis? Hvers vegna á annað að gilda um jökla en vestfirska firði?

Er það kannski vegna þess að jöklaskoðunarfyrirtækin eru á höfuðborgarsvæðinu en laxeldisfyrirtækin fyrir vestan og austan?

-k

DEILA