Frændurnir Einar Karl Kristjánsson, Einar Kárason og Einar S. Einarsson frá Ísafirði komu vestur færandi hendi á fösudaginn og gáfu Byggðasafni Vestfjarða góðar gjafir sem voru myndir og gamlir munir sem voru í fórum forfeða þeirra.
Í bréfi þeirra til Byggðasafnsins segir:
„Það er okkur undirrituðum, frændum og nöfnum, sérstök ánægja að færa safninu til eignar og varðveislu fornan kúfisksting úr fórum fjölskyldunnar, sem afi og langafi okkar í móðurætt Valdimar Sigurðsson, f.7. apríl 1861 að Látrum í Mjóafirði, d. 27. mars 1935 á Ísafirði, beitti við skelveiðar snemma á öldinni sem leið. Hann var vegna dugnaðar og leikni sinnar við þá iðju stundum kallaður kúfiskkóngur og notaði þennan sting við þær veiðar. Stingurinn er með löngu skafti (ca. 170 cm) og er vafalítið vel yfir 100 ára gamall.“
Kúfiskstingurinn.
Einnig færum við safninu sjóferðabók, Einars Kr. Þorbergssonar, (1891- 1985) frá árunum 1916-1928, sem segir sína sögu um gamla tíð og sjómannslíf við Djúp, sem og nokkrar 100 ára gamlar portrettmyndir úr smiðju Björns Pálssonar og M. Simsen, lika ljósmyndir úr eigin ranni frá miðri síðustu öld á Ísafirði og loks teikningar af merku og minnisstæðu húsi sem var.
Það er von okkar að þetta einfalda en samt sögulega verk- og veiðarfæri muni vekja athygli og forvitni fróðleiksfúsra safngesta um forna atvinnuhætti og annað það sem hér fylgir með sé þess virði að verða haldið til haga til að varpa ljósi liðna tíð fyrir framtíðarkynslóðir.“