Ánægjulegar fréttir af Gefum íslensku séns

Það telst frekar líklegt að íbúar Vestfjarða, allavega norðanverðra Vestfjarða, hafi heyrt af átakinu Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag. Það er samt ekki endilega víst að viðkomandi viti nákvæmlega hvað átakið stendur fyrir. Bráðlega verður vonandi gerð bragarbót þar á.

Nú ber nefnilega svo við að hægt verður að kynna starfsemina enn betur svo og að efla til muna. Nýverið skrifaði nefnilega Sædís María Jónatansdóttir forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða undir samning til rúmlega eins árs við Viðskipta- og menningarmálaráðuneytið og Félags- og vinnumálaráðuneytið. En Fræðslumiðstöð Vestfjarða tók nýlega við sem aðalumsjónaraðili átaksins af Háskólasetri Vestfjarða. Háskólasetur Vestfjarða er engu að síður áfram aðili að átakinu.

Með samningnum fær átakið fjárstyrk upp á 12 milljónir króna. Það fjármagn verður nýtt til að styrkja starfsemina enn frekar í sessi og þróa verkefnið áfram. Markmiðið er að búa til afurð sem nýtast má á landsvísu svo og að leita samstarfs sem víðast svo hugmynda- og aðferðafræði átaksins megi skjóta rótum á landsvísu. Enn sem komið er hefir átakið einkum verið bundið við Vestfirði og þá aðallega Ísafjörð. Undanfarin ár hefir og mest allt starf átaksins verið unnið í sjálfboðavinnu og fyrir styrkfé úr, m.a., Þróunarsjóði innflytjendamála.

Með samningnum er fjármagn tryggt til að standa straum af starfseminni; að kynna átakið og fyrir hvað það stendur, standa að viðburðum, námskeiðum, stuttum sem lengri, semja kennslu- og fræðsluefni í prent og myndformi og almennt auka sýnileika íslensku í almannarými svo og auðvitað að hvetja og styðja notkun íslensku í samfélaginu.

Afurðin sem stefnt er á mun byggjast á því sem Gefum íslensku séns hefir staðið að undanfarin ár en einnig verður prófað sig enn frekar áfram og ástunduð viss tilraunastarfsemi sem vonandi skilar sér í betri heildarmynd.

Hluti fjárveitingarinnar fer í að greiða fyrir 50% stöðugildi verkefnastjóra átaksins sem hingað til hefir verið unnið af Ólafi Guðsteini Kristjánssyni. Hann mun gegna starfinu fram til loka janúar en þá er áformað að annar aðili taki við starfi verkefnastjóra. Verður staðan því auglýst bráðlega. Séu einhverjir þegar áhugasamir má hafa samband í gegnum nýtt netfang átaksins: gis@frmst.is eða símleiðis hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða í gegnum 456-5025.

Vert er og að benda á að nú þegar hefir orðið breyting á starfseminni. Ákveðið var að fjölga hefðbundnum viðburðum átaksins og á nú hraðíslenska (stefnumót við íslensku) og Þriðja rýmið sér stað tvisvar í mánuði. Svo er unnið að dagskrá sem nær til áramóta en vert er þegar að geta þess að sérstök áhersla verður lögð á 16. nóvember, Dag íslenskrar tungu.

Við hjá Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag hlökkum til að hefja nýjan kafla í starfi átaksins og hvetjum eftir sem áður alla til að leggja sitt lóð á vogarskálina.

Sædís María Jónatansdóttir

DEILA