Álfhildur Leifsdóttir: vill berjast fyrir fjölskyldum á landsbyggðinni og kvenfrelsi

Álfhildur Leifdóttir er efst á framboðslista Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi. Hún var beðin um að segja deili á sér.

Ég er Skagfirðingur í húð og hár, uppalin í Keldudal í Skagafirði þar sem ég sinnti sveitastörfum með foreldrum mínum og systkinum þar til ég fluttist suður í háskólanám. Ég nam kerfisfræði við Háskólann í Reykjavík og grunnskólakennaranám við Háskóla Íslands þar syðra. Í dag bý ég á Sauðárkróki og er kennari og verkefnastjóri í tækni í Árskóla. Mestum hluta af tíma mínum utan vinnu ver ég í sveitarstjórnar- og samfélagsmál, prjóna mér til dægrastyttingar, sinni fjölskyldunni minni og MBA námi. Ég er einstæð móðir þriggja barna en til okkar fjölskyldu teljast nú líka tveir hundar, tveir kettir og stöku hross jafnvel líka.

Undanfarin sex ár hef ég fengið gríðarlega mikilvæg tækifæri á sveitarstjórnarstiginu til að setja mig inn í fjölmörg mál og stuðla að jákvæðum breytingum fyrir íbúa Skagafjarðar og Norðurlands vestra, eða frá því að ég tók sæti í sveitarstjórn Skagafjarðar sem og í stjórn SSNV. Fyrir það er ég þakklát, reynslunni ríkari og tel mig hafa öðlast breiða þekkingu á málefnum landsbyggðarinnar en líka góða innsýn á hvað skortir sárlega í byggðamálum. Ég hef sinnt félagsmálum kennara, verið formaður Kennarasambands Norðurlands vestra undanfarin ár og lagt mitt af mörkum í kjarabaráttu kennara. Með þessa fjölbreyttu reynslu úr bæði sveitarstjórnarmálum og skólaumhverfinu er ég fullviss um að ég geti lagt mitt af mörkum á landsvísu til að bæta samfélagið og styðja við landsbyggðina, efla félagslegt réttlæti og stuðla að öflugri menntun fyrir alla.

Ég vil berjast fyrir fjölskyldum á landsbyggðinni og kvenfrelsi og leggja áherslu á fjölbreyttar lausnir í atvinnu-, mennta- og umhverfismálum. Þessar kosningar snúast um skýrt val á milli hægri og vinstri. Á síðustu árum höfum við séð hvernig öfl á hægri vængnum daðra við rasisma og innfluttan áróður sem vinnur gegn innflytjendum og jaðarsettum hópum, á meðan mikilvæg mál eins og húsnæðismál, efnahagsmál og félagslegt réttlæti mæta afgangi. Ég vil að Norðvesturkjördæmi hafi sterka rödd sem berst fyrir samfélagslegri framþróun, réttlæti og umhverfisvernd. Rödd sem þekkir hversdagslegt landsbyggðabasl af eigin reynslu. Félagslegt réttlæti er mér mikilvægt og þá ekki síst staða kvenna og staða einstæðra foreldra, enda þekki ég það vel af eigin reynslu. Það er mikilvægt að öll börn eigi jafnan rétt, en staða einstæðra foreldra sýnir svart á hvítu annað og því verður að breyta.
Það er mín skoðun að þetta kjördæmi hafi að mörgu leyti dregist aftur í samgöngumálum, aðgengi að þjónustu og öðrum mikilvægum byggðamálum en á sama tíma er ég óendanlega stolt af því fjölmarga sem vel er gert, stolt af einstöku náttúrunni okkar og veit að tækifærin til frekari uppbyggingar eru fjölmörg.

Álfhildur var spurð um:

a) afstöðu til laxeldisins á Vestfjörðum

Við í VG höfum lagt mikla áherslu á að setja ramma utan um fiskeldið sem tryggir sjálfbærni og verndun lífríkisins. Við lögðum fram metnaðarfullt frumvarp á síðasta þingi þar sem sem gerð var tilraun til þess að koma skikk á umhverfi greinarinnar. Í frumvarpinu var mikið lagt uppúr náttúruvernd og gengið mun lengra í þeim efnum en áður hefur sést, á heimsvísu. Frumvarpið var vel unnið og reynt að sætta ólík sjónarmið.

Fiskeldi hefur verið lyftistöng fyrir byggðir á Vestfjörðum og Austfjörðum, en allar atvinnugreinar  verða að starfa í sátt við náttúruna og nærsamfélagið. Það er lykilatriði í þessu, enda fylgja greininni ýmsar hættur, allt frá sjúkdómum sem geta valdið hruni í greininni yfir í erfðablöndun.

Þegar við sjáum slysasleppingar eða önnur óhöpp, þá er það ekki bara umhverfið sem hlýtur hnekki, heldur samfélagið allt. Þess vegna leggjum við ríka áherslu á svokallað social licence to operate eða samfélagslegt leyfi til að starfa, sem þýðir í raun að fyrirtæki vinni í sátt við samfélagið og á grundvelli trausts. Þetta snertir líka staði eins og Seyðisfjörð þar sem það er skýrt af hálfu íbúa að vilja ekki eldi, það er niðurstaða sem að mér finnst við þurfa að virða. Vestfirðingar þekkja það vel að hafa dregið línu við Jökulfirðina og það ríkir samfélagsleg sátt um að þar verði ekki sjókvíaeldi með staðfestu strandsvæðisskipulagi. Framtíð greinarinnar ræðst fyrst og fremst af því að við tryggjum henni trausta og skýra lagaumgjörð, þannig að samfélagið njóti réttláts arðs af auðlindanýtingunni og greinin geti vaxið í sátt við þjóðfélagið allt. Það þýðir að við verðum að byggja upp öfluga stoðþjónustu, stuðla að aukinni þekkingu og efla eftirlit með starfsemi greinarinnar.

b) til virkjana á Vestfjörðum, þar er einkum um að ræða væntanlega Hvalárvirkjun og svo hugmyndir um Vatnsdalsvirkjun.

Virkjana- og orkumál á Vestfjörðum eru flókin og snerta bæði þarfir samfélagsins, framlag okkar til loftslagsmála og vernd náttúrunnar. Það sem okkur ber öllum saman um, bæði stuðningsfólki og andstæðingum virkjana á svæðinu, er þörfin fyrir bætt afhendingaröryggi á Vestfjörðum. Við þurfum að líta til lausna sem geta styrkt núverandi innviði. Nýfundin heitavatnsæð á Ísafirði eru frábærar fréttir og gæti leyst stóran hluta af orkuþörf bæjarins á næstu misserum. Það er mikilvægt að halda áfram að vinna að slíkum lausnum sem geta mætt orkuþörf samfélagsins án þess að ganga á gæði náttúrunnar.  

Hvalárvirkjun er komin í ákveðið framkvæmdaferli og þar hefur rammaáætlun lagt línurnar, en ég skil jafnframt þær áhyggjur sem snúa að áhrifum hennar á náttúru og lífríki. Varðandi Vatnsdalsvirkjun þá hefur Vesturbyggð, eins og staðan er núna, tekið afstöðu gegn því að leysa úr friðunarskilmálum, og sem stendur er ekki raunhæft að tala um þessa virkjun sem næsta skref. Skipulagsvaldið er í höndum sveitarfélagsins, og því skiptir þeirra afstaða verulegu máli. Að mínu mati væri skynsamlegt að skoða alla möguleika til að tryggja orkuöryggi Vestfirðinga áður en til þess kæmi að virkja innan friðlands, enda er mikilvægt að náttúran njóti vafans. Friðlönd eins og Vatnsfjörður eru ekki bara mikilvægar náttúruperlur heldur líka hluti af menningarlegum og vistfræðilegum verðmætum okkar. Friðlýsingar eru gerðar til að vernda einstakt lífríki og náttúru þessara svæða fyrir núverandi og komandi kynslóðir.

Orkuauðlindir okkar eru ekki óþrjótandi og það sama á við um ósnortin víðerni og villta náttúru. Okkur ber skylda til að standa vörð um þau verðmæti fyrir kynslóðir framtíðar. Þess vegna er ekki aðeins mikilvægt að tala um orkuskipti sem loftslagsaðgerð heldur þarf að endurhugsa alla neyslu og draga úr orkunotkun. 

DEILA