Að bjarga brotinni byggð

Það ósætti sem ríkir í sveitarstjórnarmálum í Strandabyggð hefur trúlega ekki farið fram hjá mörgum.  Rót þess er meðal annars það framferði núverandi oddvita og sveitarstjóra, Þorgeiri Pálssyni, gagnvart fyrrum sveitarstjórnarmanni, Jóni Jónssyni þjóðfræðingi.  Eftir að Jón hefur þurft að berjast fyrir að hreinsa mannorð sitt liggur greinargerð KPMG fyrir þar sem skýrt kemur fram að allar ávirðingar um sjálftöku eru fjarri öllu sanni.  Ekkert bólar þó á afsökunarbeiðni sveitarstjóra og aðrir fulltrúar meirihluta leggja samþykki sitt yfir slíkt framferði og vörðu hann vantrausti nýlega.  Það sem fær mig til að skrifa þennan pistil er þó ekki einvörðungu þetta tiltekna mál, heldur vangaveltur um hvernig unnið hefur verið að atvinnumálum af hálfu núverandi meirihluta Strandabyggðar.

Staðan

Í Strandabyggð hefur stöðug fólksfækkun verið um langt skeið og umtalsvert áfall varð í atvinnulífi við lokun rækjuvinnslu Hólmadrangs fyrri hluta síðasta árs.  Sveitarfélagið Strandabyggð hefur verið skilgreind sem brothætt byggð og fulltrúi íbúa í verkefninu Sterkar Strandir orðaði það svo fyrir ári síðan að hún væri í raun brotin og að persónulegur ágreiningur innan stjórnsýslunnar stæði í vegi fyrir árangri.  Það var vissulega rétt mat og ástandið ekki batnað síðan.  Ég tel þó langt því frá að sveitarfélagið eigi sér ekki viðreisnar von og reyndar margt jákvætt sem þar hefur verið gert á undanförnum árum í atvinnulífi af hálfu heimaaðila.

Þar ber ekki síst að nefna uppbyggingu tveggja sjálfseignarstofnanna, þ.e. Galdrasafns og Sauðfjárseturs, en þær sýningar og aðrir viðburðir sem þessar sjálfseignarstofnanir standa fyrir eru ekki síst aðdráttarafl á svæðinu fyrir ferðamenn í dag.  Báðar byggðar upp af framsýni og fórnfýsi og því einkennileg framsetning að þær stofnanir og einstaklingar sem stóðu að uppbyggingu þeirra séu sakaðir um sóun fjármuna úr sveitarsjóði.  Ástæðan virðist vera greiðslur sveitarfélagsins, sem voru að stærstum hluta vegna reksturs upplýsingamiðstöðvar ferðamanna, einhverjir styrkir vegna annarra verkefna og klárlega engin sjálftaka sem greinargerð KPMG staðfestir.  Þeir einstaklingar sem hafa komið að uppbyggingu þessara stofnana í gegnum tíðina geta verið stoltir af sínu framlagi og eiga annað skilið en ásakanir frá núverandi meirihluta.  Ýmislegt fleira og nýrra af nálinni má nefna sem jákvætt er í uppbyggingu atvinnulífs staðarins, eins og Galdur brugghús og ný fiskvinnsla, Vilji fiskverkun ehf.  Að uppbyggingu hennar hef ég komið með heimamönnum og þekki því best til þess verkefnis.

Vinnubrögð meirihluta

Það má skilja á núverandi oddvita að einblína skuli í dag á lögskyld verkefni sveitarfélaga og því ekki svigrúm til styrkveitinga til annarra verkefna.  Mér sýnist það vera rót þessara fáránlegu ásakana hans að hann telji að fyrri sveitarstjórnir, m.a. sú sem sagði honum upp störfum, hafi gerst sek um ónægt aðhald hvað þetta varðar.  Vissulega eru lögskyld verkefni í forgangi sveitarfélaga, en skilningur þarf þó að vera á því að til þess að ná árangri í að færa samfélag úr brothættu eða brotnu ástandi þarf að hafa a.m.k. skýra stefnu og vinna markvissa vinnu sem styður við uppbyggingu atvinnulífs.  Það að koma að stuðningi við ýmislegt í atvinnu- og menningarlífi staðarins er ekki sóun fjármuna sé það gert með skynsömum hætti eins og í tilfelli þeirra verkefna sem sveitarfélagið greiddi fyrir hjá fyrrgreindum sjálfseignastofnunum.

Það vekur athygli mína að atvinnumálanefnd sveitarfélagsins, sem jafnframt fer með hafnamál og dreifbýlismál  virðast samkvæmt fundargerðum helst hafa það hlutverk að funda árlega um fjallskilaseðil.  Ekki er gert lítið úr mikilvægi þess og kannski enginn annar tilgangur með nefndinni miðað við stefnu meirihluta.  Engin fundur var haldin eða nein bókun frá þeirri nefnd varðandi lokun rækjuvinnslu Hólmadrangs eða önnur viðbrögð við því, hversu sérkennilegt sem það kann að hljóma.

Sveitarstjóri sjálfur virðist samt talsvert upptekinn af atvinnutengdum verkefnum þótt þau séu ekki lögskyld verkefni sveitarfélaga.  Ég kynntist því m.a. hvaða afskipti sveitarstjóri hafði við úthlutun sértæks aflamarks Byggðastofnunar og reyndi að beita sínum áhrifum til að ákveðið aðkomufyrirtæki fengi kvótann, þótt það hefði ekki einu sinni lagt inn umsókn um hann.  Markmið þess fyrirtækis um atvinnusköpun á svæðinu, sem starfsmaður sveitarfélagsins birti síðar, voru um helmingi færri störf en í umsókn heimaaðila.  Sveitarstjóri vann engu að síður markvisst gegn því að hópur heimaaðila fengi úthlutun, sem þó treystu sér til að gera mun meira úr aflamarkinu í atvinnulegu tilliti á staðnum.  Stjórn Byggðastofnunar gekk til samninga við heimamenn um þessa úthlutun og upp úr því hefur verið stofnað fyrirtækið Vilji fiskverkun ehf sem er með 15 manns í vinnu.  Auk starfa við landvinnsluna hefur þetta þegar haft jákvæð áhrif á atvinnusköpun og tekjuaukningu í kringum útgerð á staðnum.

Það verður að teljast bæði einkennilegt og aumkunarvert þegar meirihluti sveitarstjórnar í brothættri byggð vinnur með þessum hætti og bítur höfuðið af skömminni með því að senda síðan frá sér bókun eins og þá sem T-listi gerði þegar niðurstaða lá fyrir.  Þar eru heimaaðilar ásakaðir um að hafa ekki lagt nógu hart að sér við að ná samningum við þetta ágæta fyrirtæki sem sveitarstjóri barðist fyrir.

Sannleikurinn er sá að heimaaðilar höfðu frumkvæði að því ræða við alla hina þrjá umsóknaraðilana að beiðni Byggðastofnunar og ræddu einnig við fulltrúa þess fyrirtækis sem sveitarstjóri barðist fyrir að fengi úthlutun, en var þó ekki umsóknaraðili eins og fram hefur komið.  Niðurstöður samtalsins voru að einn umsóknaraðili bættist í hóp heimamanna og veiðir úr þessu aflamarki í dag.  Eigandi aðkomufyrirtækisins hafði meiri skilning en meirihluti Strandabyggðar og hvatti heimaaðila til að stofna vinnslu sjálfir.  Gott samtal var við Fiskvinnsluna Drang á Drangsnesi, sem einnig sótti um, og aðstandendur Vilja hafa haft frumkvæði að áframhaldandi samtali um samstarfsfleti sem styrkt geti þessar tvær vinnslur sem starfa á sama atvinnusóknarsvæði.

Ég tel það ekki líklegt til árangurs þegar snúa á við þróun hjá byggð sem telst brothætt eða brotin að tiltrú á getu heimamanna sé ekki til staðar og litið sé svo á að það eina sem til bjargar verði sé utanaðkomandi lausnir og fjárfestingar í stórum verkefnum.  Ekki síst ef slík sé sýn þeirra sem eru ráðandi í rekstri sveitarfélagsins og ættu að einbeita sér að sameiningu íbúa, efla kjark þeirra og tiltrú á tækifærin.

Að spara aurinn en kasta krónunni

Ekki skortir á að sveitarstjóri tilkynni um viljayfirlýsingar milli sveitarfélags og aðila varðandi væntanleg stór uppbyggingarverkefni í atvinnulífi.  Það virðist því vera að hann verji einhverjum starfstíma í annað en lögskyld verkefni við framkvæmdastjórn sveitarfélagsins.  Benda má á viljayfirlýsingu um hótelbyggingu og viljayfirlýsingu um uppbyggingu eldis á regnbogasilungi og annarra haftengdra verkefna sem báðar voru undirritaðar á fyrri hluta síðasta árs.  Hvorug þessara góðu hugmynda hefur komist á framkvæmdastig ennþá eða miklar fréttir farið af stöðu mála.  Viljayfirlýsing um hótelbyggingu hefur þó væntanlega þegar kostað sveitarfélagið talsverðar fjárhæðir vegna breytinga á skipulagi.  Þar er bara byggt á viljayfirlýsingu sem er ekki bindandi á neinn hátt og auk þess gerð við fyrirtæki sem samkvæmt ársreikningum er aðeins með nokkurra milljón króna veltu á ári, það litla að hún stendur ekki undir launum eins starfsmanns.  Eðlilegt væri að um slík verkefni sem ekki eru lögskyld hjá sveitarfélagi væri krafist vandaðri undirbúnings, vera betur kynnt fyrir íbúum og vera trúverðugri og líklegri til árangurs með samningum við aðila sem hafa getu til að fylgja málum eftir.  Ættu þau ekki líka að vera á forsvari nefndar sem fjallar um atvinnumál fremur en sveitarstjóra sjálfs og fá í mesta lagi kynningu hjá nefndinni milli umræða um fjallskilaseðil ? 

Það er vonandi að meirihluti og sveitarstjóri í Strandabyggð átti sig á mikilvægi þess að vera í góðu samtali við heimamenn og hafi trú á getu þeirra.  Það er meiri árangurs að vænta ef sveitarstjóri og sveitarstjórn setur sig í það hlutverk að vera hlekkur í strengdri keðju heimaaðila um að verja byggðina, fremur en að halda dauðahaldi í endann á hangandi keðju gylliboða.

Meirihluti Strandabyggðar þarf að sýna þá auðmýkt að biðjast afsökunar á innihaldslausum ásökunum gangvart einstaklingum, þarf að hafa trú á heimaaðilum frekar en að vinna gegn þeim, virkja lýðræðislega umfjöllun í stjórnsýslu sveitarfélagsins og gæta þess að kasta ekki krónum og spara aurinn þegar kemur að atvinnumálum.

Gunnlaugur Sighvatsson

Höfundur er sjálfstætt starfandi og í stjórn Vilja fiskverkunar ehf.

DEILA