Vikuviðtalið: Óðinn Gestsson

Ég er framkvæmdastjóri Fiskvinnslunnar Íslandssögu hf, Norðureyrar ehf sem að er útgerðarfélag staðsett á Suðureyri, ásamt því að ég sé um rekstur Vestfisks í Súðavík sem er harðfiskþurrkun. Það má segja að rekstur fiskvinnslu og útgerðar séu að miklu leyti mitt áhugamál, en ég hef starfað í þessum geira frá því að ég byrjaði á vinnumarkaði. Í þessum fyrirtækjum sem að ég stýri starfa um 50 manns af mörgum þjóðernum, því má segja að maður lifi og hrærist í alþjóðlegu umhverfi.

Fiskvinnslan Íslandssaga hf var stofnuð 6. desember 1999 og fagnar því á þessu ári 25 ára afmæli. Ég hóf hins vegar störf hér á Suðureyri eftir að hafa verið í burtu um skeið í árslok 1990, þá voru erfiðir tímar í útgerð og vinnslu, fyrstu árin sá ég um útgerðarmálin en síðar gerðist ég framkvæmdastjóri Fiskiðjunnar Freyju, sem rann inní Básafell í frægum sameiningum sem áttu sér stað á 10. áratug síðustu aldar, vinnslan á Suðureyri rann svo útúr Básafelli og til varð Fiskvinnslan Íslandssaga hf.

Ég fæddist á Suðureyri 1959 og sleit barnsskónum þar gekk í skóla fram að unglingastigi, en fór þá í Héraðsskólann á Laugarvatni, eftir það lá leiðin í Stýrimannaskólann og lauk ég prófi þaðan 1980, árið sem að myntbreytingin var og allir áttu fullt af peningum, skattlausa árið þegar staðgreiðslan var tekin upp. Ég hóf stýrimannaferilinn í Þorlákshöfn og var þar í nokkur ár en fór síðan á skip frá Keflavík, bæði sem stýrimaður og skipstjóri. Sjómannsferillinn endaði svo á Akureyri á frystitogara sem seldur var þangað af Suðurnesjunum. Fékk svo símtal frá Guðna Einarssyni félaga mínum sem bauð mér að koma til starfa við útgerðina á Suðureyri og hér er ég enn.

Ég er giftur Pálínu Pálsdóttur leikskólastarfmanni og eigum við þrjár dætur. Við eigum í dag 10 barnabörn og finnst það bara nokkuð gott. Það má segja að áhugamálin utan vinnunnar séu samvistir við fjölskylduna og fluguveiðar, undanfarin ár hef ég unnið í því að sameina þessa ástríðu mína að veiða við samvistir með fjölskyldunni, mér finnst það hafa tekist afar vel, í sumar hef ég eingöngu veitt með fjölskyldumeðlimum mörgum saman eða einum í einu, það er mjög gaman að eiga minningarnar um fyrsta laxinn hjá unga fólkinu og að geta sameinast í því sem öllum líkar. En auðvitað er áhuginn misjafn eins og í öðrum áhugamálum, en ég kvarta ekki.

Ég hef setið í stjórnum margra fyrirtækja á leiðinni, þá hef ég verið virkur í pólitísku starfi í gegnum lífið og fundist það gefandi, ég hef reynt að láta gott af mér leiða í íþróttastarfinu og lagt töluverða vinnu í það í gegnum tíðina. Það yrði of langt mál að telja allt upp, það myndi engin nenna að lesa það. Ég er venjulegur Vestfirðingur sem brenn fyrir samfélagið sem að ég bý í á hverjum tíma og reyni að láta gott af mér leiða.

Þó verður ekki undan því vikist að nefna einn hóp sem að ég tilheyri, „Karlahreysti“ þetta er hópur manna ungir og eldri sem koma saman þrisvar í viku í öllum mánuðum sem eru með R innanborðs og ganga sér til heilsubótar segja sögur af sjálfum sér og öðrum misgóðar margar sannar en flestar lognar á einn eða annan hátt. Þessi hópur er undir dyggri stjórn Árna Ívarssonar og á hann miklar þakkir skyldar fyrir það. Þetta er sá félagsskapur sem hefur gefið mér mest og er þó af mörgu að taka.

DEILA