Ég heiti Hafdís Gunnarsdóttir, er Vestfirðingur í allar áttir. Titla mig stolt sem Hnífsdælingur og Ísfirðingur enda aldist ég upp á báðum þessum stöðum. Hnífsdalur var dásamlegur staður til að búa á sem barn enda léku allir saman á aldrinum 6-16 ára og þar var ég frægust fyrir að vera lamin óvart með hafnaboltakylfu í andlitið. Þá var ég í fyrsta skiptið að taka þátt í hringbolta og stóð víst full nálægt kylfumanninum, sem sveiflaði svo fast að hann sló mig óvart í andlitið. Ég græddi nefbrot, tvo rosaleg glóðuraugu og góða sögu til að segja á mannamótum út ævina. Á æskuárunum bjó ég líka á Nýfundnalandi í Kanada og í Guymas, Mexíkó sem gerði mér ótrúlega gott enda öllum hollt að fara út fyrir heimahagana.
Í dag vinn ég sem sviðsstjóri skóla- og tómstundssviðs Ísafjarðarbæjar sem er í senn krefjandi og virkilega áhugavert starf. Svo er ég varamaður í stjórn Landsnets. Mínu sviði tilheyra leik- og grunnskólar, íþróttahús, sundlaugar, skíðasvæðið, Dægradvöl, félagsmiðstöðvar og vinnuskóli. Ég er menntaður grunnskólakennari, vann sem slíkur í 9 ár í Grunnskólanum á Ísafirði og fannst það eitt skemmtilegast starf sem ég hef unnið. Mæli hiklaust með því að verða kennari. Þaðan fór ég yfir á velferðarsvið og vann nokkur ár sem ráðgjafi í barnavernd og svo sem forstöðumaður stoðþjónustu. Var svo bæjarfulltrúi, varaþingmaður og formaður fjórðungssambandsins í nokkur ár. Ég held samt að þau störf sem hafi mótað mig hvað mest séu sumarstörfin í Íshúsfélaginu og sem héraðslögreglumaður. Starfið í Íshúsinu kenndi mér þrautseigju enda ekkert grin að standa tímunum saman og hreinsa fisk án þess að hlusta á útvarp eða tala við sessunaut. Lögreglustarfið kenndi mér svo auðmýkt, virðingu og mikilvægi svarts húmors til að komast í gegnum erfið verkefni.
Ég er gift Shirani Þórissyni og eigum við saman þrjá stráka Jón Gunnar, Guðmund og Þórð. Okkar sameiginlegu áhugamál eru íþróttir og ferðalög. Svo mikill er áhugi Shirans á golfíþróttinni að hann flytur lögheimilið sitt á golfvöllinn í Tungudal á sumrin og er alltaf mikil gleði á heimilinu þegar hann snýr aftur til byggða á haustin. Ég reyndi að stunda golfið með honum en þarf að ná aðeins betri tökum á innbyggða Fljótavíkur-drekanum sem gerir mig hvatvísa og örlítið ergilega þegar illa gengur. Ég hef meiri áhuga á skíðum en golfi og reyndi einu sinni að draga Shiran yfir í það sport en það endaði með sjúkrahúsdvöl hjá honum í 2 löndum og var bara vesen. Ég æfði svigsskíði sem krakki en síðastliðin ár hef ég meira stundað skíðagöngu enda frábær hreyfing og fátt sem toppar aðstæður á Seljalandsdalnum á góðum sólardegi.
Mér finnst frábært að búa á Ísafirði og ala hér upp börn. Það tekur okkur Shiran og tvo yngri strákana 1 mínútu að ganga í vinnu og skóla. Stutt að fara upp í íþróttahús þar sem strákarnir æfa sínar íþróttir og sækja nú nýja útikörfuboltavöllinn. Það besta við að búa á Ísafirði er að ég get farið úr vinnunni og 15 mínútum seinna verið komin á skíði í kyrrðinni upp á dal, sem eru þvílík lífsgæði.